142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

[15:18]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka fyrir þessa ágætu skýrslu. Það er mikilvægt að fá hana. Það er fagnaðarefni að hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skyldi eiga frumkvæðið að því að biðja um hana á sínum tíma. Mér finnst ekki mikill bragur á því að vera að reyna að velta þingmönnum þáverandi stjórnarandstöðu upp úr því hvað þeir sögðu hér í umræðu um mál. Auðvitað ber stjórnarandstaða ekki ábyrgð á því hvernig mál eru framsett og hefur ekki þær upplýsingar sem ríkisstjórn hefur á hverjum tíma. Það er ekki hægt að reyna að koma á stjórnarandstöðuna ábyrgð á ákvörðunum sem voru teknar árið 2004.

Þegar þingmenn í þessum sal kölluðu eftir efndum á loforðum um 90% lán vissu þeir ekki betur en það væri mikilvægt að koma þeim strax í framkvæmd. Það sem stjórnvöld vissu var að það þurfti að tilkynna þau áform til Eftirlitsstofnunar EFTA og höfðu fengið um það ráð, m.a. frá þeim sem hér stendur.

Aðeins um það til að hafa það alveg á hreinu. Lögmenn ákveða ekki stefnu opinberra stofnana sem þeir vinna fyrir, það ákveða stofnanirnar sjálfar og taka ákvarðanir sínar sjálfar. Ég hef aldrei kveinkað mér undan því að bera ábyrgð á hinum svokölluðu Árna Páls-lögum þótt tugir lögmanna hafi komið að undirbúningi þeirra. Aldrei hefur mér dottið í hug að vísa ábyrgð á þeirri löggjöf á þeirra hendur. Hún er mín að því sem kemur að tilurð þess frumvarps.

Varðandi spurninguna, sem er mjög mikilvægt að halda utan um, sem kom fram hjá hv. þm. Karli Garðarssyni um hvað ráðherrar Samfylkingarinnar gerðu ætla ég að rekja hvað gerðist frá því að samfylkingarráðherrar settust í ríkisstjórn. Það voru settar hæfniskröfur til stjórnar. Það voru settar hæfniskröfur til ráðningar framkvæmdastjóra, en það er sérstaklega gagnrýnt og fjallað um það ítarlega hversu losarabragurinn var mikill þar. Stofnunin er felld undir eftirlit Fjármálaeftirlits. Það var hafinn undirbúningur að útgáfu útdraganlegra bréfa, en breytingin frá 2004 þegar öll skuldabréfin voru gerð óútdraganleg er upphafið að ógæfunni. Síðan hefur ekki reynt á þetta vegna þess að það hefur ekki verið gefið út, en það er alveg ljóst að gefin voru fyrirmæli úr félagsmálaráðuneytinu strax frá minni tíð um að hefja undirbúning á útdraganlegum bréfum til að draga úr áhættunni. Svo kom beiðni um þessa skýrslu sem er auðvitað nauðsynleg forsenda frekari umgerðar.

Ég held að stór hluti af þeim vanda sem við erum að fást við hér sé tálsýnin mikla um hið stéttlausa Ísland, að á Íslandi sé hægt að búa til einhvers konar umgjörð þar sem allir hafi það gott og ekki sé til nein misskipting í landinu. Við heyrðum þá meinloku í ræðuflutningi hæstv. forsætisráðherra 17. júní að Ísland væri stéttlaust land og engin misskipting í landinu. Þannig hefur það aldrei verið og þannig er það ekki. Þess vegna hefur alltaf þurft félagslegar lausnir í húsnæðismálum á Íslandi. Grundvallarhugmyndin sem varð að mistökum árið 2003 og 2004 var að halda að þeir tímar væru einhvern veginn runnir á enda, hægt væri að búa til úr Íbúðalánasjóði áhættusækinn banka og ríkið þyrfti ekki með neinum sérstökum hætti að sjá fyrir félagslegum þörfum á húsnæðismarkaði. Það var rangt. Það var kostnaðarsamt að hætta húsbréfakerfinu sem Jóhanna kom á. Það var skynsamlegt kerfi. Það fól í sér algjöra lágmarksáhættu fyrir ríkissjóð sem rak kerfið og það voru söguleg mistök að kasta á bálköst tilraunastarfsemi árið 1999 næstum því 100 ára uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis á Íslandi, arfleifð sem væri okkur svo mikilvæg í dag ef við ættum það kerfi enn þá og er vandamál núna að við eigum engar alvörulausnir fyrir fólk í alvarlegum vanda sem hefur ekki tekjur til að standa undir lánum á kaupum á venjulegri íbúð og getur ekki staðið undir markaðsleigu.

Ég held að það sé ákveðinn lærdómur sem við eigum að draga af þessu. Ég fagna sérstaklega orðum hv. þm. Brynjars Níelssonar og hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Ég ætla að hrósa þeim fyrir að vísa í að pólitíkin hefði brugðist.

Ég ætla að segja alveg hreinskilnislega að við verðum að passa okkur á því að ræða kosti og galla ólíkra lausna í þessu máli með jafn opnum huga og við ætlum að gera í öðrum málum. Mér hefur þótt bera um of á því í umræðu um Íbúðalánasjóð á undanförnum árum að menn hafi getað stokkið í einhvers konar helg vé og sagt að Íbúðalánasjóður væri góður og við skyldum ekkert tala um það frekar. Það er ekki skynsamlegt og það er hættulegt. Það þarf að greina kost og löst. Stjórnmálin verða að ráða við það.

Ég hef oft sagt úr þessum ræðustól, sem félagsmálaráðherra sagði ég það mörgum sinnum, að rekstur Íbúðalánasjóðs er ekki markmið í sjálfu sér, Íbúðalánasjóður er tæki til að ná markmiðum. Markmið félagslegrar og skynsamlegrar húsnæðisstefnu í landinu náðust betur, að mínu viti, með verkamannabústaðakerfi og húsbréfakerfi heldur en með Íbúðalánasjóði eftir breytinguna 2004. Það er mín bjargfasta skoðun og ég hef fært fyrir henni ítarleg rök. Ég held að við getum mörg verið sammála um það hér.

Núna er það verkefni okkar að ná saman um þetta, en ég ætla að lýsa því yfir fyrir fram að ég hef enga sérstaka trú á að stjórnmálin ráði við það. Það verður prófsteinn á stjórnmálin hvort við ráðum við að gera þetta af viti, vegna þess að það eru svo margar meginlínur sem birtast aftur og aftur í úttektum sem gerðar hafa verið.

Úttekt starfshóps um framtíðarfyrirkomulag Íbúðalánasjóðs var skilað rétt fyrir kosningar og var hún í mjög miklu samræmi við úttekt sem ég lét vinna 2010, sem var akkúrat í umtalsverðum samhljómi við úttekt sem unnin var í félagsmálaráðherratíð Magnúsar Stefánssonar. Það er auðvitað búið að vinna býsna mikinn grunn sem á að vera hægt að byggja á. Nú reynir á að stjórnmálin ráði við að vísa veginn áfram.

Ég held líka að við þurfum að hemja óheft vald stjórnmálanna til að gera stórkostlegar breytingar gegn faglegri ráðgjöf. Ég held að það sé stórhættulegt hversu opið íslenskt samfélag er fyrir gríðarlegum breytingum þar sem engar hömlur eru á meirihlutavaldi Alþingis. Ég hef oft kallað þetta hið óhefta og óbeislaða meirihlutaræði í landinu. Það er vont. Það verður að hemja völd stjórnmálamanna.

Í Bretlandi er búið að koma á fyrirbæri sem heitir „Major Project Authority“, með leyfi forseta. Það er stofnun sem metur stór áform stjórnvalda og gefur þeim einkunn, hvort hægt sé að framkvæma þau, hvort þau standist eðlilegar forsendur. Hér vantar okkur algjörlega slíkt. Við þurfum að hlusta á aðvörunarorð og við þurfum að taka þau til okkar þótt þau komi frá skammstöfun, jafnt innlendum sem útlendum skammstöfunum. Það hlýtur að vera lærdómurinn sem við verðum að draga.

Við verðum sérstaklega í þessu ljósi að horfa af mikilli ábyrgð á þau stórfelldu áform sem við erum nú með á borðinu fyrir framan okkur, sem ríkisstjórnin er búin að kynna með þingsályktunartillögu í skuldamálum þar sem er auðvitað gefinn upp bolti um hluti sem geta haft gríðarleg áhrif á velsæld á Íslandi, á efnahagslegt öryggi almennings og skiptir gríðarlega miklu máli hvernig til tekst. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við athugasemdum við þá þingsályktunartillögu gefa ekki ástæðu til að ætla að menn hafi lært mikið í vinnubrögðum. Við munum ganga ríkt eftir því á haustþingi að þess sjái stað í vinnu ríkisstjórnarinnar að menn vinni öðruvísi, að menn taki til sín gagnrýni og að við eigum uppbyggilegt samtal um það sem getur farið aflaga og metum áhættu rétt.