142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

[15:35]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér skýrsluna um Íbúðalánasjóð. Mig langar að byrja á að þakka fyrir þessa skýrslu. Áður hafa verið unnar úttektir og skýrslur um starfsemi Íbúðalánasjóðs og fjallað var um hana í stóru skýrslunni frá rannsóknarnefnd Alþingis. Í megindráttum var okkur hér á þingi ljóst, og hefur verið nú í nokkur ár, hver vandi Íbúðalánasjóðs er og að á honum þurfi að taka.

Mig langar að hvetja menn til að anda með nefinu, átta sig á verkefninu, okkar sameiginlega verkefni, og vinda okkur svo í það.

Ég saknaði þess á liðnu kjörtímabili, ég tók hér sæti fyrir fjórum árum, að við eyddum ekki meiri tíma í að fara yfir hvernig við ætluðum að breyta Íbúðalánasjóði af því okkur var öllum ljóst að það þurfti að gera; það þarf grundvallarbreytingar á starfsemi sjóðsins. Fyrir ári, í júnímánuði, áttum við hér orðastað um Íbúðalánasjóð. Verið var að gera breytingar á ákvæðum í lögum varðandi stjórn sjóðsins og hæfi æðstu starfsmanna hans. Við sjálfstæðismenn kölluðum mjög eftir því í þeirri umræðu að farið yrði í það verkefni að ræða hvernig við ætluðum að breyta starfsemi sjóðsins til framtíðar. Það voru ekki margir sem tóku undir það með okkur að sjóðurinn ætti að einbeita sér að sínu félagslega hlutverki í stað þess að vera í bullandi samkeppni við einkabanka á markaði með ríkisábyrgð að baki sér. Það er það sem að mínu mati er augljós niðurstaða og augljóst verkefni okkar hér á þinginu að takast á við þær spurningar og þær niðurstöður sem birtast okkur í þessari skýrslu. Þær koma meðal annars fram í meginniðurstöðukafla skýrslunnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Raunar er ekki að sjá nein rök fyrir aðkomu hins opinbera að almennum lánveitingum á húsnæðismarkaði eftir að vaxtafrelsi var komið á, nútímavæðingu fjármagnsmarkaða lauk og ríkisbankarnir voru seldir.“

Síðan segir:

„Ríkisábyrgð var notuð til þess að laða meðal annars að erlent áhættufé til þess að lækka vexti. Uppgreiðsluáhætta Íbúðalánasjóðs var stóraukin og var þar farið gegn ráðleggingum sérfræðinga.“

Þess vegna finnst mér mjög leitt að heyra það hér í þessari umræðu að menn vilji ekki horfa á þessa niðurstöðu. Ég vísa til orða hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem greinilega ætlar að velja hvaða köflum hann ætlar að trúa og hvaða köflum ekki, þar sem megininntak ræðu hans var það að hin félagslegu öfl vilji halda í þetta kerfi, að ná vöxtum niður í skjóli ríkisábyrgðar, að félagslegu öflin hafi fagnað því að 90% lánin kæmu til, fagnað lægri vöxtum sem að sjálfsögðu er mjög gott. Það er markmið okkar að ná lægri vöxtum, en ekki þannig að á grundvelli þess kerfis lendi reikningurinn allur á skattgreiðendum á endanum. Það getur bara ekki verið það sem við ætlum okkur að gera til framtíðar, ég trúi því ekki.

Þess vegna vil ég sérstaklega fagna ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar. Þar kvað við nýjan tón frá því í umræðunni hér fyrir ári. Formaður Samfylkingarinnar sagði að við ættum að hlusta á viðvörunarorð stofnana. Í því máli sem við ræddum fyrir ári var ESA að gera athugasemdir við starfsemi Íbúðalánasjóðs þar sem hann væri í skjóli ríkisábyrgðar í samkeppni við einkabanka. Á því þyrfti að taka. Ekki var farið í það að koma til móts við þessar athugasemdir. Lítillegar breytingar voru gerðar til að sýna fram á að einhver vilji væri til að gera breytingar. Menn hér, bæði í þessari umræðu og þá, sögðu að ekki væri rétt að þrengja að starfsemi sjóðsins vegna þess meðal annars að það væri enginn annar sem lánaði út á land.

Þetta er rangt. Við erum hér með á þskj. 1704 frá 140. löggjafarþingi svar við fyrirspurn minni til innanríkisráðherra. Þar spurði ég ráðherrann að því, og hann tók saman upplýsingar fyrir mig um það, hvert hlutfall þinglýstra lána með veði í íbúðarhúsnæði eftir landsvæðum væri, annars vegar frá Íbúðalánasjóði og hins vegar frá öðrum kröfuhöfum á árunum 2007–2012. Þetta svar er mjög athyglisvert vegna þess að það sýnir okkur svart á hvítu að þær fullyrðingar að það sé bara Íbúðalánasjóður sem lánar út á land eru ekki réttar. Við erum hér með tölfræðina um það. Þetta eru rangar fullyrðingar og menn geta ekki skýlt sér á bak við þær og neitað að ræða þetta mál. Það er bara ekki hægt.

Ég vona svo sannarlega að við öll hér inni treystum okkur í að breyta Íbúðalánasjóði, treystum okkur til að horfast í augu við það að kannski höfðum við bara mörg hver í einhverjum atriðum rangt fyrir okkur gagnvart Íbúðalánasjóði og málefnum hans. Eigum við ekki bara öll að reyna að setja upp þau gleraugu? Það er í lagi að hafa ekki alltaf rétt fyrir sér. Það er hins vegar ekki í lagi að játa það ekki þegar manni er sýnt fram á að maður hafi rangt fyrir sér og halda áfram á sömu vitlausu brautinni. Það er vandamál. Ég hvet hv. þingmenn til að leyfa sér að viðurkenna að þeir hafi haft rangt fyrir sér. Það er ótrúlegt frelsi í því fólgið. Það er það. (SJS: Getur þú ekki bara …?)

Það er kannski það sem ég vona að við öll tileinkum okkur. Ég hef gert það. Ég vona svo sannarlega að þeir elstu þingmenn sem hér sitja inni prófi, (Gripið fram í.) hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að gera þetta alla vega einu sinni. Tökum bara þetta mál, Íbúðalánasjóð, leyfum okkur aðeins að hugsa þetta upp á nýtt. Ég vona að við gerum það. Ég vil í því sambandi benda á að OECD hefur hvatt til einkavæðingar Íbúðalánasjóðs frá því að Húsnæðismálastofnun varð til. Við hljótum öll að þekkja einhvern í okkar flokkum sem hafa einhvern tímann lesið þessar ábendingar frá OECD og ættu að hafa hugsað til þess að skoða hvort þetta væru nú kannski réttmætar ábendingar, ábendingar sem rétt væri að kíkja á.

Herra forseti. Kaflinn í þessari skýrslu í 3. bindi þar sem fjallað er um lærdóm sögunnar, 17. kaflinn, er athyglisverður. Þar er farið yfir það hvert við gætum stefnt varðandi Íbúðalánasjóð. Hér er fjallað um að það séu ókostir við að reka opinbera banka sem lúti öðrum skorðum en aðrar fjármálastofnanir en starfi í samkeppni við þær. Hér er líka fjallað um það að niðurgreiðsla lána til almennings skili fyrst og fremst aukinni skuldsetningu og veikari eignastöðu heimilanna en dragi lítið úr greiðslubyrði vegna þess að fasteignaverð, eins og fjallað hefur verið um hér í umræðunni, rjúki upp eða hafi tilhneigingu til að hækka þegar greiðslugetan eykst. Við höfum upplifað þetta hér á landi. Við þekkjum þetta. Við hljótum að ætla að bregðast við.

Það er jafnframt niðurstaða nefndarinnar, miðað við þennan kafla, að það sé ljóst að bankakerfið sé fullfært um að sinna öllum almennum lánveitingum þar á meðal vegna fasteignakaupa. Það er niðurstaða hér.

Í kafla 17.2 er síðan farið yfir það hvernig hægt væri að aðstoða þá sem á þurfa að halda við að koma sér upp húsnæði. Taldir eru upp nokkrir flokkar um mismunandi form aðstoðar: engin aðstoð, aðstoð í formi bóta, aðstoð í formi skattafsláttar, aðstoð við að taka lán til húsnæðiskaupa með veitingu ríkisábyrgðar, eins og við þekkjum, aðstoð við að taka lán til húsnæðiskaupa með niðurgreiðslu vaxta og síðan annað, svo sem niðurgreiðsla á byggingarkostnaði. Við höfum því hér heilan kafla sem ég vona að við ætlum okkur að setjast yfir með nýju gleraugunum okkar og athuga hvort við sjáum ekki eitthvað gott sem við getum byggt á til framtíðar.

Í kaflanum, svo að minnst sé á það, um skattafsláttinn er jafnframt fjallað um skattafslátt og leigumarkað. Þetta er gríðarlega áhugaverður kafli. Í þessum niðurstöðukafla, sem er sá kafli þar sem við reynum að draga lærdóm af fortíðinni og skýrslunni í heild, eru ábendingar um það hvernig hægt sé að bregðast við núverandi ástandi Íbúðalánasjóðs. Þetta eru í raun tvö verkefni: Hvernig við ætlum að bregðast við því ástandi sem Íbúðalánasjóður er kominn í og hins vegar hvernig við ætlum að byggja upp húsnæðiskerfið okkar til framtíðar.

Það er alveg ljóst að við þurfum að taka umræðu um það hvort setja eigi gjald á uppgreiðslur viðskiptavina sjóðsins. Við þurfum að taka umræðu um það. Það er ekkert auðvelt. Það er ekkert skemmtilegt. Það var ekki gert á síðasta kjörtímabili. Ég hvet okkur öll til að hætta í því sambandi að benda á sökudólga, það getur að vísu verið mjög skemmtilegt í rökræðum og umræðum í þessari pontu að rífast og verða blár í framan af æsingi og kalla fram í o.s.frv., en það skilar okkur engum árangri og sérstaklega ekki fólkinu í landinu sem bíður eftir því að við byggjum upp kerfi sem er nothæft til að fólk geti fengið öruggt húsnæði yfir höfuðið á sér og sinni fjölskyldu.