142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

[15:46]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því, eins og flestir aðrir, að þakka fyrir þessa skýrslu og þá sérstaklega hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir að koma þessu af stað. Það er eins með þessa skýrslu og allar aðrar, það er mjög ánægjulegt þegar Alþingi tekur upp á því að vinna skýrslur af þessu tagi og finna niðurstöður, orsök og afleiðingar mistaka. Ég vona þá að þessi skýrsla verði okkur sú lexía sem hún á að vera. Það er ekkert langt síðan hin margumrædda skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út, árið 2010 að mig minnir, hún virðist ekki hafa verið rædd neitt eftir það. Ég man ekki eftir því að hún hafi verið rædd nema einu sinni hér á þingi eða tvisvar. Því miður finnst mér eins og hún hafi bara gleymst. Menn töluðu reyndar um að þetta væri að þvælast fyrir einhverjum eitthvað tímabundið, og mér finnst mjög alvarlegt ef menn tala þannig um svona skýrslur.

Þetta var gríðarlega vel unnin skýrsla, skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis. Þótt ég hafi alls ekki lesið hana alla hef ég aðeins gluggað í hana og að mínum dómi ætti allt okkar stjórnmálastarf í dag að grundvallast á niðurstöðum þessarar skýrslu. Þar kemur fram margt sem læra má af um það hvernig við getum unnið í stjórnmálum Íslandi til heilla. Því miður virðist sú alls ekki hafa orðið raunin með þessa skýrslu að menn fari neitt eftir því. Það er nóg að horfa til síðasta þings þar sem ástandið var, að því er mörgum finnst, bara hryllilegt.

Mig langar að vitna aðeins í skýrsluna, með leyfi forseta. Það er kafli um stjórnsýslu, stjórnsiði og stjórnmál, II. kafli í 8. bindi. Þar er talað um íslenska stjórnmálamenningu og þann lærdóm sem draga megi af þessari skýrslu og því sem gerst hafi. Með leyfi forseta:

„Leita þarf leiða til þess að styrkja siðferðisvitund stjórnmálamanna og auka virðingu þeirra fyrir góðum stjórnsiðum. Í því skyni þyrftu þingmenn meðal annars að setja sér siðareglur og skýra þar með fyrir sjálfum sér og almenningi hvernig þeir skilja meginskyldur sínar og ábyrgð.

Draga þarf úr ráðherraræði og styrkja eftirlitshlutverk Alþingis.

Efla þarf góða rökræðusiði meðal þjóðarinnar og kjörinna fulltrúa hennar. Í því skyni þyrfti að vinna skipulega að því í skólum landsins að búa nemendur undir þátttöku í lýðræðissamfélagi með þjálfun í málefnalegri rökræðu og skoðanaskiptum.“

Síðan stendur, með leyfi forseta:

„Taka þarf stjórnarskrána til skipulegrar endurskoðunar í því skyni að treysta grundvallarinnviði lýðræðissamfélagsins og skýra betur meginskyldur, ábyrgð og hlutverk valdhafa.“

Þetta finnst mér mjög góður punktur, af þessu má draga mikinn lærdóm. Þetta er eitthvað sem við ættum að gera og einhenda okkur í það öll hér.

Í III. kafla, Samfélagið, segir um þann lærdóm sem við megum draga af þessu:

„Sporna þarf gegn hugmyndafræði afskiptaleysisins með raunhæfri fræðslu um takmarkanir markaðarins og mikilvægi öflugs eftirlits með honum.

Glæða þarf skilning á hlutverki ríkisstofnana í því að skapa skilyrði fyrir öflugt atvinnulíf, réttarríki og velferðarsamfélag.

Leggja þarf rækt við raunsæja, ábyrga og“ — takið eftir — „hófstillta sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar sem byggist á þekkingu og skilningi á menningu okkar og samfélagi.

Þjálfa þarf gagnrýna hugsun og efla læsi borgaranna á hvers kyns áróður og innistæðulausa ímyndarsmíð.“

Þetta finnst mér mjög gott. Þetta er til eftirbreytni og ég vona að við förum eftir þessu.

Mig langar líka til þess að minna og vitna í lokaorð 8. bindis þar sem segir, með leyfi forseta:

„Íslensk stjórnmálamenning hefur einkennst um of af átökum og kappræðu þar sem sanngildi staðhæfinga er lítilvægt í stað rökræðu og sjálfstæðis löggjafans gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það voru ekki aðeins eftirlitsstofnanir með fjármálakerfinu sem brugðust hlutverki sínu heldur einnig sú stofnun sem framar öðrum á að gæta almannahagsmuna — Alþingi.“

Þarna stendur skýrum stöfum hvað klikkaði. Hér standa menn og benda hver á annan út og suður, kenna þessum flokki og hinum flokki um hvernig komið er. Við eigum ekkert að standa í því að vera að kenna hvert öðru um. Sagan dæmir sig sjálf. Saga okkar Íslendinga einkennist af ótrúlegum mistökum, hagstjórnarmistökum og öðru. Maður veltir því fyrir sér sem nýr þingmaður: Hvar enda þessi ósköp eiginlega sem dynja á okkur, milljarðar á milljarða ofan sem alltaf hefur lent á almenningi að borga? Það er líka viss hópur alltaf í þjóðfélaginu sem stendur í lappirnar og þarf aldrei að borga neitt, en þessi mistök stjórnmálamanna í gegnum tíðina lenda alltaf á almenningi. Við erum hér á Alþingi til að gæta þeirra hagsmuna.

Virðulegi forseti. Ég vona svo sannarlega að við, þessir 63 kjörnu fulltrúar á Alþingi, komum til með að vinna saman, tökum þessa skýrslu alvarlega, og þessar skýrslur báðar, snúum bökum saman og vinnum að heildarlausn fyrir íslenskt samfélag. Ég treysti hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fullkomlega til að leiða þá vinnu. Það segi ég eftir að hafa fylgst með henni á þingi undanfarin ár. Þar er traustur þingmaður. Ég treysti henni fullkomlega til að takast á við þetta. Ég er tilbúinn, og við í mínum flokki, að hjálpa til við það.

Það krefst hugrekkis að hlusta á hjarta sitt. Það krefst hugrekkis að fylgja sannfæringu sinni, boða sýn, treysta fólki, hlusta á rök og upplýsingar. Það krefst hugrekkis að standa í fæturna og axla ábyrgð.