142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[16:02]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mig langar til að gera grein fyrir afstöðu Bjartrar framtíðar til þessa frumvarps og þá jafnframt mínu atkvæði.

Hér er lagt til að lækka veiðileyfagjöldin svo um munar. Flestir eru sammála um að við séum að tala um 9–13 milljarða í tekjutap fyrir ríkissjóð á þessu og næsta ári. Þetta er stóra málið.

Hér hafa margir tekið til máls og menn eru ósammála og það hefur verið athyglisvert. Þetta hefur verið athyglisverð umræða því að við erum ekki að tala um það sem við erum sammála um, ekki það sem sameinar. Það er meira í þessu máli sem við erum sammála um en það sem skilur okkur að. Við eigum að vera að vinna saman út frá þeim pól því að það er leiðin til lausnar.

Það hefði verið góður bragur á því ef atvinnuveganefnd hefði gert sameiginlega breytingartillögu við þetta frumvarp, en við höfum því miður ekki látið reyna á það. Minni hlutinn lagði hins vegar fram breytingartillögu sem er til bóta og ég vona að þingmenn stjórnarflokkanna hafi lesið hana. Þingflokkur Bjartrar framtíðar leggst gegn lækkun á veiðileyfagjaldi og greiðir atkvæði á móti 2. og 3. gr. en við tökum ekki afstöðu til 1. gr. Þar er margt ágætt en ákvæðið um heimildir ráðherra er (Forseti hringir.) óljóst.