142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[16:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í kjölfar efnahagshruns þegar tekjustofnar höfðu hrunið og útgjöld aukist þurfti að taka á í ríkisrekstri. Leið okkar jafnaðarmanna var skýr. Hún var sú að auka gjaldtöku af afnotum af sameiginlegum auðlindum en stilla í hóf álögum á fólk og verðmætaskapandi fyrirtæki. Það er sú leið sem við höfum farið.

Ný ríkisstjórn vill hverfa frá þessari leið, hún vill snúa til baka. Afleiðingin verður niðurskurður á opinberri þjónustu og/eða auknar álögur á almenning í landinu. Það er það sem er boðað hér.

Það er eðlilegt að menn spyrji spurninga um það hvernig veiðigjöld eru lögð á. Við höfum boðað einfaldar leiðir til að bregðast við öllum málefnalegum athugasemdum sem settar hafa verið fram. Eftir stendur það mat allra helstu sérfræðinga á þessu sviði hér á landi og þeirra íslensku sérfræðinga sem starfa erlendis, erlendra alþjóðastofnana, skammstafananna allra saman, að þetta sé skynsamleg leið til tekjuöflunar fyrir íslenskt samfélag og ríkisstjórnin (Forseti hringir.) er að hafna henni.