142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[16:11]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um forgangsmál nýrrar ríkisstjórnar, forgangsmál sem snýst um það í fyrsta lagi að draga úr tekjum ríkissjóðs og hleypa fjárlögum yfirstandandi árs í uppnám sem og fjárlagavinnu fyrir næsta ár, og í öðru lagi að hverfa frá þeirri hugmyndafræði sem hér hefur verið farið yfir í ítarlegum umræðum um þetta mál að innheimta eðlilega rentu hjá þeim sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar.

Þetta mál snýst ekki bara um það tekjutap sem það hefur í för með sér fyrir ríkissjóð, það snýst líka um hugmyndafræði, hvernig við viljum sjá auðlindir þjóðarinnar og hvort við meinum eitthvað með því í alvöru þegar við segjum að þær eigi að vera í sameiginlegri eigu þjóðarinnar og að þjóðin eigi að fá eðlilega rentu af auðlindunum.