142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[16:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér blasa við okkur þau vinnubrögð sem minni hlutinn hefur stundað í þessu máli sem og á síðasta kjörtímabili. Hér er um mjög óvandaða breytingartillögu að ræða sem ekki stenst lög en það er svo sem engin breyting fyrir minni hlutann. Í fyrstu meginreglu í verklagsreglum í hagskýrslugerð er kveðið á um sjálfstæði hagskýrsluyfirvalda gagnvart stjórnmálaöflum og annarri utanaðkomandi íhlutun við gerð og dreifingu opinberra hagskýrslna sem er bundin lögum. Í lögum um Hagstofu Íslands er ekki gert ráð fyrir að hún taki þátt í álagningu skatta enda ekki um tölfræðigerð að ræða. Hagstofan telur því að þátttaka í álagningu veiðigjalds stríði gegn þeim lögum sem um starfsemi hennar gilda, gegn lögum sem gilda um evrópska hagskýrslugerð og gegn verklagsreglum um evrópska hagskýrslugerð. Með öðrum orðum værum við að fara gegn þeim samþykktum sem við höfum samþykkt á alþjóðavettvangi og þeim lögum sem við höfum undirgengist á alþjóðavettvangi. Þetta vita menn.

Það er ekki hægt að breyta þessum lögum með því að smella fingrum eins og gefið hefur verið í skyn til að veiðigjaldsnefndin fái þær upplýsingar sem hún þarf til að vinna sína vinnu. Ráðherra setti af stað sérstakan tæknihóp (Forseti hringir.) sem átti að vinna þessa vinnu og var að því í margar vikur en kom með enga niðurstöðu. Þessi breytingartillaga gengur ekki, hún er gegn (Forseti hringir.) lögum og þeir sem greiða henni atkvæði sitt eru tilbúnir að brjóta þau lög sem gilda um stofnanir í landinu. Auk þess mun þetta leggja (Forseti hringir.) 5 þús. milljóna viðbótargjald á bolfisksfyrirtækin í landinu.