142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[16:14]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um fyrstu tillögu af þremur frá minni hluta í atvinnuveganefnd um þetta mál, veiðigjöldin. Við erum með tillögu um að veiðigjaldsnefnd verði gert kleift að fá þær upplýsingar sem hún þarf til að geta lagt hér á veiðigjöld. (Gripið fram í.) Það er tilgangur þessarar tillögu. (Gripið fram í.) Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Jón Gunnarsson fái að ræða hér um atkvæðagreiðsluna á eftir og geti þá talað úr ræðustóli Alþingis frekar en úr sæti sínu þannig að ég legg til að honum verði gefið orðið.

Í öðru lagi felur þessi tillaga líka í sér annað sem hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir fjallaði um áðan og það eru litlu og meðalstóru fyrirtækin. Í þessari tillögu er einmitt fjallað um það að við ætlum að hækka fríkvótamörkin fyrir litlu og meðalstóru fyrirtækin, það lægsta úr 30 þúsundum í 50 þúsund (Forseti hringir.) þannig að komið verði til móts við þau. Þessa tillögu ætlar stjórnarmeirihlutinn hér að fella.