142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[16:16]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við í minni hlutanum leggjum fram breytingartillögu og eins og komið hefur fram hefur verið mikil umræða um að tæknilega séð hafi ekki verið hægt að leggja á veiðigjöld. Við leggjum til að styrkja þá lagastoð að Hagstofan hafi heimild til að taka við þeim gögnum sem hún þarf til að leggja á veiðigjöld. Við teljum að það sé vel mögulegt að styrkja það með þessari tillögu. Þá mætum við þeim sem eru í útgerð í litlum og meðalstórum fyrirtækjum með því að hækka frítekjumark og veita aukinn afslátt og að fullt gjald í sérstöku veiðigjaldi verði einungis greitt eftir 250 þús. þorskígildiskíló. Þessi aðgerð er raunveruleg til að mæta litlum og meðalstórum fyrirtækjum og kostar ríkissjóð aðeins 310 milljónir. Það yfirvarp (Forseti hringir.) sem nú er, að verið sé að mæta þessum útgerðum, er einungis til að lækka á stórútgerðina sem er í bullandi hagnaði.