142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:27]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur vakið mikla og verðskuldaða undrun og athygli í samfélaginu. Það vekur athygli vegna þess að það kemur í kjölfar síendurtekinna hótana sjálfstæðismanna í garð Ríkisútvarpsins. Nú á að hefta Ríkisútvarpið. Það á að koma böndum á ritstjórnarlegt frelsi þess og það er verið að fylgja forskriftinni sem margir gamlir hádegismórar Sjálfstæðisflokksins hafa verið svo vinsamlegir að birta á opinberum bloggsíðum sem hvatningu til sinna manna um að passa að menn muni nú eftir því að hreinsa óþægu mennina út.

Hitt vekur meiri undrun að sjá umskiptinguna og það umskiptingalið sem Framsóknarflokkurinn er orðinn að núna. Þeir sitja hér hæstv. ráðherrar Eygló Harðardóttir og Gunnar Bragi Sveinsson sem greiddu atkvæði með nýju stjórnarfyrirkomulagi RÚV fyrir nokkrum mánuðum en hafa snúist við á punktinum til að ganga erinda Sjálfstæðisflokksins í aðförinni að Ríkisútvarpinu.