142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka nefndarmönnum í allsherjar- og menntamálanefnd fyrir þeirra starf í þessu máli. Ég vil segja það líka að hér hafa fallið stór og mikil orð um þetta frumvarp. Það sem hér er að gerast er að verið er að leggja til að gerð verði sú breyting frá núgildandi lögum að í stað valnefndar, sem skipuð var þremur mönnum frá Alþingi, einum frá Bandalagi íslenskra listamanna og einum frá samráðsvettvangi háskólanna, verði haldið við það fyrirkomulag sem verið hefur hér alla tíð að Alþingi Íslendinga, virðulegasta stofnun þjóðarinnar, skipi stjórn Ríkisútvarpsins, sem er einhver mikilvægasta stofnun þjóðarinnar. Ég tel það gagnsætt, ég tel það tengja saman ábyrgðina og ég tel það við hæfi.

Virðulegi forseti. Það er líka um að ræða breytingartillögur, t.d. um að fjölga í stjórn úr sjö í níu, meðal annars til að mæta þeirri umræðu og tryggja að nægilega breiður hópur manna, karla og kvenna, sitji í útvarpsstjórninni. Þetta vil ég segja: Í þessum sal sitja þeir einstaklingar sem hafa umboð frá þjóðinni til að sitja hér og bakgrunnur manna er fjölbreyttur sem ég tel að tryggi mjög vel að þannig verði valið í útvarpsstjórnina að hún endurspegli öll þau sjónarmið sem hún þarf að gera.