142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:32]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er um að ræða mál sem er fullkomlega óskiljanlegt, sérstaklega hvað varðar forgangsröðun, og óþarft. Nýlega var búið að samþykkja lög um stjórnarfyrirkomulag varðandi Ríkisútvarpið og engin leið að finna nein önnur rök fyrir þessu en menn ætli að herða flokkspólitísk áhrif stjórnarflokkanna á Ríkisútvarpinu.

Í framhaldi af þeirri umræðu sem varð hér áðan, um allar þær pólitísku fyrirgreiðsluráðningar og öll þau mistök sem gerð hafa verið, er enn alvarlegra að menn skuli snúa í þessa átt, algerlega gegn þeim meginstraumum sem hafa verið um að draga úr flokkspólitísku valdi í stjórnum stofnana.

Samfylkingin hefur tjáð sig skarpt á móti þessum tillögum. Jafnvel þó að við séum þarna með tvær ágætisbreytingartillögur sem eru í rétta átt þá munum við sitja hjá við þær en greiða atkvæði á móti frumvarpinu vegna þess að þarna er verið að fara í kolvitlausa átt og í flokkspólitíska átt.