142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:38]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég styð þessa tillögu og vonast til að sjá að sem flestir hv. þingmenn geri það enda er hér verið að leggja til að Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins tilnefni einn mann, og annan til vara, í stjórnina sem hafi þar málfrelsi og tillögurétt. Ég sé að menn eru almennt hér í salnum ánægðir með þá tillögu.

Mig langar örstutt að koma inn á það að ef þingmenn hér hafa haft athugasemdir varðandi hlutverk stjórnar RÚV hefðu þeir hinir sömu kannski átt að koma fram með einhverjar breytingartillögur er lytu að því að færa það eitthvað til.