142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Við skulum ekki gleyma því að í fyrirhugaðri valnefnd var gert ráð fyrir að meiri hluti hennar yrði skipaður héðan af Alþingi. Við skulum heldur ekki gleyma því að umræðan hefur annars vegar snúist um að það væri ópólitískari leið sem ég mótmæli og bendi á að það er fólginn ákveðinn barnaskapur í því að halda að slík valnefnd yrði ópólitísk. Hún getur nefnilega orðið mjög pólitísk, t.d. eftir því hverjir sitja í henni.

Í öðru lagi hefur verið rætt að hægt sé að tryggja betur dreifingu með valnefnd, að það komi fleiri að því að velja stjórnarmennina. Hér í þessum sal sitja 63 hv. þingmenn með mismunandi reynslu á bak við sig. Ég tel að sá hópur sé ágætlega til þess fallinn að velja níu einstaklinga til að sitja í þessari stjórn. Því skyldi það ekki vera þannig að ein virðulegasta stofnun þjóðarinnar sem fer með löggjafarvaldið skuli einmitt setja stjórn einnar mikilvægustu stofnunar þjóðarinnar? (Forseti hringir.) Ég tek eftir því að minni hlutinn í þinginu hefur ekki lagt fram breytingartillögu um hlutverk stjórnarinnar. Það er umhugsunarefni, sérstaklega í ljósi [Háreysti í þingsal.] þeirra gífuryrða sem hafa fallið af hálfu margra (Forseti hringir.) hv. þingmanna.