142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:47]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Sem fulltrúi Framsóknarflokks í allsherjar- og menntamálanefnd vil ég gera grein fyrir atkvæði mínu í atkvæðagreiðslu um frumvarp um Ríkisútvarpið, val stjórnarmanna, með áorðnum breytingum. Eins og fram hefur komið þá er þar lagt til að Alþingi tilnefni níu manna stjórn og starfsmenn eigi áheyrnarfulltrúa.

Það kom fram í vinnu nefndarinnar að eðlisbreyting í lögunum sem samþykkt voru síðasta vor staðfesti í raun það hvernig stjórnin hefur unnið síðustu ár, þess vegna sá ég ekki ástæðu til að breyta því. En með samþykkt fyrirliggjandi frumvarps tel ég lýðræðið styrkt í sessi og ábyrgð skýrari en í ákvæðum þeirra laga sem samþykkt voru í vor og ekki eru komin til framkvæmda.