142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[17:51]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu fagna því að náðst hafi um það samstaða í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að afgreiða þetta frumvarp úr nefndinni, ég tel það mikinn áfanga. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að ná í upphafi á nýju kjörtímabili vinnu við breytingar á stjórnarskrá. Það skiptir miklu máli að gera það þannig að við komumst áfram. Við ræddum mikið stjórnarskrá á síðasta kjörtímabili — og ég vil gera athugasemdir við þau orð sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir notaði hér áðan um að Samfylkingin hefði gert aðför að stjórnarskránni. Við lögðum á það mikla áherslu að unnið yrði að stjórnarskrárumbótum og það voru fleiri en við. Við stóðum hér fyrir kosningar 2009 í langri umræðu, með félögum okkar í Framsóknarflokknum, að kröfu Framsóknarflokksins, um að sérstakt stjórnlagaþing yrði grundvallarkrafa í aðdraganda kosninganna 2009. Framsóknarflokkurinn lagði höfuðáherslu á að valdið til að setja þjóðinni stjórnarskrá yrði flutt frá Alþingi til sérstaks stjórnlagaþings sem yrði skrifað inn í stjórnarskrá og hefði fullnaðarvald um stjórnarskrárbreytingar.

Ekki tókst að ná því fram vegna ágreinings hér í þingsal og síðan ræddum við útfærslur á stjórnarskrárbreytingum á síðasta kjörtímabili. Það var kosið til stjórnlagaþings sem síðar breyttist í stjórnlagaráð og mikil vinna var unnin, bæði áður af hálfu stjórnlaganefndar og síðan af hálfu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eftir að frumvarp stjórnlagaráðs hafði verið unnið. Öll þessi vinna skilaði okkur miklum árangri. Ákvæðin sem voru sett inn bötnuðu og til er orðið mikið starf sem mun nýtast í frekari vinnu.

En það er nýr þingmeirihluti á Alþingi og hann ræður ferðinni í þessu máli, það er óhjákvæmilegt. Hann ræður verklaginu og hraðanum en við höfum fyrir okkar leyti viljað skila stjórnarskrármálinu áfram og inn í þá umgjörð að unnið verði áfram með þær tillögur sem stjórnlagaráð lagði fram og sérstaklega tekið mið af þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram fór síðasta haust.

Í samtölum okkar á milli, formanna stjórnmálaflokkanna, á undanförnum dögum höfum við náð samstöðu um að þessi vinna fari af stað á nýju þingi og að efnt verði til starfs þar sem hliðsjón verði höfð af vinnu undanfarinna ára um þetta efni, tillögum stjórnlagaráðs og stjórnlaganefndar, niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar og öðrum gögnum eins og starfi stjórnarskrárnefndar sem starfaði 2005–2007 og svo verði auðvitað horft til annarra þátta í stjórnlagabreytingum í öðrum löndum. Mér finnst það stór áfangi að við sammælumst um að hefja vinnu á vettvangi allra flokka um að halda áfram og að þessar tillögur sem liggja fyrir frá stjórnlagaráði, og leiðbeiningin sem þjóðin veitti í þjóðaratkvæðagreiðslu í fyrrahaust, fái þar með áframhaldandi líf í frekari vinnu.

Sitt sýnist hverjum um það frumvarp sem hér er verið að ræða, þannig er það bara. Við höfum heyrt hér tvær ræður hvora úr sinni áttinni þar sem þingmenn mæla gegn frumvarpinu, annars vegar vegna þess að menn telja of auðvelt að breyta stjórnarskránni og á hinn kantinn að það sé of erfitt. Við þurfum að komast upp úr því fari að öskrast á um stjórnarskrána og við þurfum að sameinast um að takast á um hinar pólitísku meginlínur en ná vel saman um grundvallarleikreglur samfélagsins. Í kosningum eigum við að útkljá hin pólitísku álitamál en við eigum að geta skapað saman almennar leikreglur í stjórnarskrá.

Það er mikilvægt, af því að við erum mikið að ræða það þessa dagana, að varpa því upp hvort og að hvaða marki taka eigi mið af erlendum og innlendum viðvörunum og athugasemdum. Undir lok síðasta þings var fengið álit Feneyjanefndar Evrópuráðsins á drögum að stjórnarskrá eins og þau lágu þá eftir vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Feneyjanefndin kom með ýmsar athugasemdir en sagði síðan að ef ekki gæfist tími til að ljúka málum væri mikilvægt að breyta því hvernig hægt væri að breyta stjórnarskrá þannig að einfaldara væri að halda vinnunni áfram á nýju kjörtímabili. Ég tel rétt að fara að þessum tilmælum Feneyjanefndar Evrópuráðsins alveg eins og ég tek alvarlega tilmæli þingmannasamkomu Evrópuráðsins um ályktunina um að við skulum ekki efna til pólitískra réttarhalda. Ég held við eigum alltaf að taka mark á Evrópuráðinu, það skiptir okkur miklu máli hvort sem hægt er að skammstafa nafn þess eða ekki. Ég held að við eigum að taka ábendingar af þessum toga af þeirri alvöru sem þær eiga skilið.

Við ákváðum, til að ná afgreiðslu þessa máls á síðasta kjörtímabili, að samþykkja háan samþykkisþröskuld og það gætti misskilnings í máli hv. þm. Birgittu Jónsdóttur áðan. Hún taldi að þátttakendur þyrftu að vera tvöfalt fleiri en þeir sem samþykktu. Það er ekki svo. Samþykkisþröskuldur upp á 40% þýðir að það dugar að 40% mæti ef þeir eru allir sammála og það dugar að 41% mæti ef 40% segja já og 1% segir nei. Það er því engin krafa um að öll þjóðin mæti á kjörstað og við vorum alveg við það að ná 40% samþykkisþröskuldi í þjóðaratkvæðagreiðslunni um auðlindaákvæðið í fyrrahaust þó að ekki væri efnt til hennar samhliða öðrum kosningum. Nú blasir við að það eru tvennar almennar kosningar á þessu kjörtímabili, sveitarstjórnarkosningar og forsetakosningar. Þar af leiðandi blasir við að það er einfalt að leggja mál fyrir þjóðina og fá þannig þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu að jafnvel breytingar sem væru í ágreiningi ættu möguleika á að verða samþykktar.

Markmið okkar er hins vegar ekki að efna til ágreinings. Markmiðið er að reyna að feta okkur áfram og finna leið til að ná saman um meginsjónarmið, betri stjórnarskrá, og leiða saman ólík umbótaöfl á málefnalegum forsendum. Ég held að það sé mögulegt út frá því verklagi sem við höfum rætt um á vettvangi formanna flokkanna. Það er mikilvægt að ná að tala saman um þessi mál yfirvegað og af skynsemi og það er mikilvægt að leita leiða til að finna hvað það er sem sameinar okkur. En það er líka mikilvægt að virða tilfinningu fólks um að umbætur þurfi á stjórnskipan landsins. Sú tilfinning hefur verið tjáð, bæði í miklum áhuga þjóðarinnar á stjórnarskrárumbótum, sem kom fram í kosningunni til stjórnlagaráðs, sem og í góðri þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni í fyrrahaust. Ég held að við þurfum að átta okkur á því að það skiptir okkur máli að hafa trausta umgjörð um stjórnarskrárbreytingar.

Núverandi fyrirkomulag er gott að því leyti að það kemur í veg fyrir of örar breytingar á stjórnarskránni. Það hefur hins vegar þann augljósa galla að breytingar á stjórnarskrá eru alltaf unnar í tímahraki undir lok kjörtímabils. Þær enda í leikaraskap og spilamennsku þar sem menn keppast við að láta andstæðinginn sitja uppi með Svarta Pétur. Hver var það sem neitaði auðlindaákvæði? Hver var það sem neitaði þessu eða hinu? Og það hefur gengið núna í aðdraganda kosninga 2013, 2009, 2007, þetta er alltaf sama sagan. Þar við bætist að við búum við afleiðingar þessa sem eru þær að við höfum ekki hreinsað reglulega til í stjórnarskránni, við höfum ekki tekið út hluti sem við erum öll sammála um að þyrfti að hreinsa en það er bara alltaf eitthvað brýnna.

Gott dæmi þar um er landsdómur. Við höfum ákvæði í stjórnarskrá um landsdóm vegna þess að engir hafa náð að horfa á það sem forgangsmál að losa þau ákvæði út. Jafnvel þó að því hafi oft verið hreyft af Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hún sat hér á þingi, margsinnis, og það hafi oft verið rætt að þetta væri úrelt kerfi þá voru alltaf einhver verkefni brýnni og menn sáu aldrei ástæðu til þess að hreinsa þarna til. Og hver er afleiðing þess? Jú, við sitjum uppi með þetta kerfi í stjórnarskránni. Og til hvers leiðir það að sitja uppi með þetta kerfi? — kerfi sem ég lærði í lagadeildinni, vel að merkja, að væri úrelt, landsdómskerfið væri úrelt fyrir notkunarleysi, það yrði aldrei notað, þetta lærði ég í lagadeildinni.

Hver er afleiðingin af því að við eigum svona erfitt með að breyta stjórnarskrá um sjálfsagða hluti? Jú, við sitjum uppi með þetta kerfi og af því að það er til á örlagatímum í sögu þjóðarinnar þá er það notað. Og nú sjá menn eftir því margir, og sífellt fleiri og fleiri, að það hafi verið notað. Sú staðreynd á að verða okkur góð áminning um mikilvægi þess að það sé vissulega ekki allt of auðvelt að breyta stjórnarskrá en það megi ekki vera svo snúið og viðurhlutamikið sem það er núna að við endum með að sitja uppi með afturgöngur gengins tíma sem skaða íslenskt lýðræðissamfélag og grundvallarviðmið réttarríkisins eins og ég trúi að landsdómsfyrirkomulagið hafi gert og tilvist þess í stjórnarskrá geri enn þann dag í dag. Af því að svona þursar geta vaknað til lífsins og það er mikilvægt að hægt sé að halda stjórnarskránni þannig að hún endurspegli raunveruleg viðhorf okkar til lýðræðis og réttarríkis á hverjum tíma.

Ég vil að síðustu segja að ég bind miklar vonir við það sem er að gerast hér núna. Ég er afskaplega ánægður með að við skulum hafa náð því sammæli, á vettvangi formanna stjórnmálaflokkanna, að halda áfram með vinnu við stjórnarskrárumbætur í góðri trú. Auðvitað felst í því að við verðum að losa okkur úr þeirri harkalegu umræðu um stjórnarskrána sem einkenndi síðustu missiri um of. Það hefur enginn rétt til að þykjast vera handhafi sannleikans í þessu efni og allir eiga rétt á því að láta skoðanir sínar í ljós og við þurfum að ræða okkur til niðurstöðu.

Stjórnarskráin er ekki pólitískt tæki til að kúga minni hluta á hverjum tíma. Hún er grundvallarplagg um sameiginlega réttindagæslu okkar og velferð okkar allra sem við eigum öll að eiga hlutdeild í. Ég hlakka til þeirrar vinnu sem fram undan er. Ég get sagt fyrir mína hönd og okkar í Samfylkingunni að við bindum miklar vonir við að geta raunverulega, með þessari stjórnarskrárbreytingu og með samstarfi allra flokka, hnikað áfram því góða verki sem nú liggur fyrir.

Við teljum mikinn akk af vinnu stjórnlagaráðs og við teljum mikinn akk af vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með það frumvarp og við teljum mikilvæga leiðsögn felast í þjóðaratkvæðagreiðslunni frá því í fyrrahaust. Við fögnum því fyrir okkar parta að sammæli sé um að taka mið af þessum þáttum. Við gerum okkur grein fyrir að aðrir vilja skoða aðra þætti og það finnst okkur líka sjálfsagt. Ég bind vonir við að við getum útbúið núna umgjörð um stjórnarskrárbreytingar með sanngjörnum og uppbyggilegum hætti sem skili okkur öllum betri stjórnarskrá á þessu kjörtímabili.