142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[18:11]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn sem tekið hafa þátt í umræðunni hafa rætt umræðuna sem varð á síðasta kjörtímabili um stjórnarskrárbreytingar. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þá umræðu en auðvitað er ljóst að ekki voru allir á eitt sáttir um hvernig staðið var að þeirri vinnu. Það sem mér hefur hins vegar sjálfri þótt hvað mikilvægast við þá miklu vinnu sem óneitanlega fór fram á síðasta kjörtímabili er að hún fór ekki eingöngu fram á vettvangi stjórnlagaráðs, á vettvangi stjórnlaganefndar, á vettvangi þingsins heldur líka í hinni opinberu umræðu. Það er ekki síst það sem mest er um vert þegar við lítum til baka og skoðum þá miklu vinnu sem unnin var á vettvangi þingsins, af því að ég nefni það, á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem vann gríðarmikla vinnu á síðasta vetri síðasta kjörtímabils við að fara yfir frumvarpið sem kom frá stjórnlagaráði, gera á því breytingar og efna til umræðna um það.

Það sem mér hefur þótt mest um vert við það ferli allt er að umræðan um stjórnarskrána — bæði þá sem er í gildi og líka það frumvarp sem stjórnlagaráð skilaði af sér og var til umræðu á Alþingi — hefur líklega aldrei verið meiri á meðal almennings í landinu, að minnsta kosti ekki í mínu pólitíska minni eða eftir því sem ég hef kynnt mér söguna. Bæði var talsverð umræða í fjölmiðlum en það var líka verið að ræða málin á kaffistofum, á vinnustöðum, þar sem karlar og konur, Íslendingar, veltu fyrir sér álitamálum í gildandi stjórnarskrá og álitamálum í frumvarpi stjórnlagaráðs. Það er kannski sú umræða sem sannfærði mig um hve mikilvægt er að breyta stjórnarskránni og hve mikilvægt er að við hér á nýju Alþingi reynum að koma okkur saman um hvernig við ætlum að standa að þeim breytingum. Það er vissulega margt sem þarf að breyta. Það sást til að mynda í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem haldin var um stuðning við það að frumvarp stjórnlagaráðs yrði lagt til grundvallar nýrri stjórnarskrá og einnig um nokkur álitaatriði í því frumvarp.

Þó að þjóðaratkvæðagreiðsla væri ráðgefandi má segja að þátttakan í henni hafi verið góð á alþjóðlegan mælikvarða þó að einhverjir vildu gera lítið úr þeirri þátttöku. Mér fannst líka merkilegt að sjá þann afgerandi stuðning sem þar kom fram við að sett yrði ákvæði um auðlindir í þjóðareign í stjórnarskrá. Einnig mátti sjá afgerandi stuðning við að meira yrði notast við beint lýðræði og lýðræðisþátttaka almennings yrði efld, nokkuð sem ég held að við Íslendingar eigum ómæld sóknarfæri í, í ljósi smæðar landsins og þess hve tæknivædd við erum. Ég held að við eigum ómæld sóknarfæri í því að efla beint lýðræði sem að sjálfsögðu snýst ekki aðeins um þjóðaratkvæðagreiðslur heldur um miklu meira, um miklu meiri þátttöku almennings í þeim ákvörðunum sem eru teknar og svo mætti lengi telja.

Ég held að þessi almenna umræða um stjórnarskrána — mér finnst mikilvægt að við sem sitjum hér á Alþingi, þó að Alþingi sé stjórnarskrárgjafinn, eins og margoft var rætt á síðasta þingi, metum þessa umræðu og áttum okkur á því að það er mjög mikilvægt að stjórnarskrá samfélagsins sé á einhvern hátt lifandi plagg. Að hún sé lifandi í hugum okkar sem lifum hér og störfum, að við séum meðvituð um hvað felst í stjórnarskrá, samfélagsgrunninum sem við byggjum á. Ef við horfum á þá fræðimenn sem í gegnum tíðina hafa velt því upp á sviði heimspekinnar hvernig við förum að því að semja samfélagssáttmála, og hvað þurfi til að við getum gert samfélagssáttmála sem virkar sem slíkur, held ég að það góða við allt þetta ferli sé að við gengum í gegnum ákveðna umræðu sem færir okkur nær slíku markmiði. Eitt af því eftirminnilegasta — og mér finnst gaman að segja frá því hér í pontu — sem ég man eftir í kringum alla þessa umræðu var listaverk, gjörningur sem ég sótti í Hafnarborg, þar sem gildandi stjórnarskrá lýðveldisins var sungin. Þetta var gjörningur Ólafs Ólafssonar og Libiu Castro myndlistarmanna. Þar sungu tónlistarmenn og fóru með gildandi stjórnarskrá og ég held að ég hafi aldrei upplifað gildandi stjórnarskrá íslenska lýðveldisins á sama hátt.

Ég hugsaði einmitt með mér, af því nú horfi ég á hv. þm. Brynjar Níelsson, og ég á afskaplega marga góða vini sem skipa starfsstétt lögfræðinga: Hér þyrftu allir lögfræðingarnir að vera. Því að það er svo mikilvægt að við einangrum okkur ekki — og nú horfi ég líka á hv. þm. Birgi Ármannsson, segi þetta líka við hann — við hinn júridíska þankagang, eins og stundum vill vera þegar við ræðum stjórnarskrána, heldur horfum líka á þetta út frá víðari sjónarmiðum og horfum á þetta út frá sjónarmiðum um það hvernig samfélagssáttmála við viljum byggja sem er ekki aðeins lagalegt úrlausnarefni heldur líka heimspekilegt og samfélagslegt úrlausnarefni.

En hafandi sagt þetta og nefnt þessa umræðu sem ég tel mikilvægt að við sem hér sitjum veltum fyrir okkur hvernig við getum nýtt til að skapa áframhald á vinnunni þá fagna ég því að sjálfsögðu að þetta frumvarp, sem hér er þá lagt fram til endurstaðfestingar á nýju þingi, hafi verið afgreitt frá hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég hef alltaf litið svo á að þetta mál snúist um að opna glugga fyrir stjórnarskrárbreytingar — því að sjálfsögðu er breytingarákvæði gildandi stjórnarskrár áfram í gildi, hér er um að ræða bráðabirgðaákvæði — á því kjörtímabili sem nú fer í hönd til að breyta stjórnarskránni með öðrum hætti.

Ég var þeirrar skoðunar ásamt öðrum flutningsmönnum málsins, hv. þingmönnum Árna Páli Árnasyni og Guðmundi Steingrímssyni, að sá samþykkisþröskuldur sem þar er ætti að vera lægri en það varð niðurstaðan, eftir heilmiklar umræður á milli hv. þingmanna, að samþykkisþröskuldurinn yrði 40%. Þó að ég hefði sjálf kosið lægri samþykkisþröskuld þá styð ég að sjálfsögðu málið. Það leggur enn meiri og ríkari skyldur á herðar okkar að ná sátt um þær breytingar sem hugsanlega kynnu að verða afgreiddar á stjórnarskrá með þessum hætti — hér er annars vegar kveðið á um 2/3 greiddra atkvæða á Alþingi og hins vegar 40% samþykkisþröskuld sem kallar ekki á 80% þátttöku nema í afskaplega umdeildum málum og það er mikilvægt að við höfum það í huga.

Ég fagna því að málið sé komið úr nefnd og vonast til þess að það verði samþykkt hér á eftir í ljósi þess að það snýst fyrst og fremst um að opna glugga þannig að unnt sé að ráðast í breytingar á stjórnarskrá sem sátt er um á því kjörtímabili sem nú fer í hönd með aðkomu þings og þjóðar. Raunar er það skoðun mín að þegar við lítum til langtímabreytinga á stjórnarskrá sé það eðlileg þróun mála að þjóðin komi að stjórnarskrárbreytingum en ekki einungis þingið. Það tel ég hina eðlilegu þróun mála og ég er nokkuð viss um að ég á marga fylgismenn í þeirri afstöðu. Það er til að mynda eitt af því sem hægt væri að taka til skoðunar á því kjörtímabili sem nú fer í hönd.

Hæstv. forsætisráðherra hefur kynnt fyrirætlanir sínar um að setja á laggirnar stjórnarskrárnefnd með þátttöku fulltrúa allra flokka til að vinna að breytingum á stjórnarskrá. Hér á Alþingi mun hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd væntanlega líka fást við málefni stjórnarskrár á nýju kjörtímabili. Ég vona að við berum gæfu til að vinna saman að góðum breytingum á stjórnarskrá og byggja á þeirri miklu umræðu sem varð í samfélaginu í kringum vinnu stjórnlagaráðs — ég neita því ekki að ferlið var umdeilt en ég held að það sé mikilvægt að við skoðum allt það góða sem eftir stendur. Ég held við hljótum öll að geta verið sammála um að margt mjög gott stendur eftir vinnu stjórnlagaráðs og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég vona svo sannarlega að okkur lánist að nýta þá góðu vinnu.