142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[18:24]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að láta hjá liggja við þetta tækifæri að rifja upp ýmis deilumál fortíðarinnar í þessum efnum. Við þekkjum það að frá síðasta kjörtímabili og raunar lengur hafa margir þættir, bæði varðandi verklag og aðferð við undirbúning stjórnarskrárbreytinga og hinar efnislegu breytingar sjálfar, verið mjög umdeildir á þessum vettvangi og víðar í þjóðfélaginu. Skoðanir manna á því hvað hefur gerst og hvað gert hefur verið í þessum efnum eru skiptar og við horfumst líka í augu við það að hér í þessum sal hafa menn mismunandi hugmyndir um það hversu miklar breytingar á stjórnarskrá menn vilja gera til framtíðar.

Tillagan sem liggur fyrir byggir á stjórnarskipunarlögum sem samþykkt voru í vor. Ég hafði ákveðna fyrirvara varðandi þá afgreiðslu eins og margir aðrir hér í þinginu, ekki síst vegna þess undir hvaða kringumstæðum breytingin var ákveðin og hvernig að henni var staðið. Hins vegar kom oftar en einu sinni fram í máli mínu við þær umræður að margt efnislegt í málinu gæti fallið ágætlega að sjónarmiðum mínum. Mín afstaða gagnvart því ákvæði stjórnarskrár sem felur í sér reglu um það hvernig stjórnarskrá verður breytt hefur alltaf byggst á því að eðlilegt væri að það sætti einhverri endurskoðun. Það væri á margan hátt eðlilegt að leita eftir stuðningi í þjóðaratkvæðagreiðslu um endanlega niðurstöðu þess máls þegar búið væri að afgreiða það frá Alþingi.

Í þeirri tillögu sem liggur fyrir, sem breyttist í málsmeðferð á vorþinginu, eru fyrir hendi ákveðnir öryggisventlar sem ég held að séu mjög mikilvægir þegar horft er til stjórnarskrárbreytinga vegna þess að stjórnarskrá á að njóta meiri verndar gagnvart breytingum en almennt gerist um lög. Það á að vera erfiðara að breyta stjórnarskrá en almennum lögum og það er eðlilegt að mínu mati að gera ákveðnar kröfur um það að stjórnarskrárbreytingar byggi á nokkuð víðtækri samstöðu.

Þannig atriði eru skrifuð inn í þetta frumvarp eins og það liggur nú fyrir. Það skiptir máli gagnvart minni afstöðu í þessu að hér er gerð krafa um að 2/3 greiddra atkvæða í þinginu séu með stjórnarskrárbreytingum. Í því felst rík samstöðukrafa að 2/3 þingmanna — ef allir eru viðstaddir atkvæðagreiðslu þýðir það 42 þingmenn — standi að stjórnarskrárbreytingu. Það leggur þá skyldu á herðar manna að ná allvíðtækri samstöðu. Síðan er líka í þátttökuskilyrðinu varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu ákveðinn þröskuldur sem felur í sér að minnst 40% atkvæðisbærra manna verða að greiða atkvæði með breytingunni, þó alltaf meiri hluti þeirra sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni.

Þarna er tvíþætt krafa sem í báðum tilvikum á að stuðla að því að ekki verði ráðist í breytingar nema allgóð samstaða sé um. Það má alveg hugsa sér kringumstæður þar sem tæpur þriðjungur þings stendur gegn breytingu og verulegur hluti kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu en með því að setja málið upp með þessum hætti er alla vega dregið úr hættunni á því að reynt verði að fara í gegn með stjórnarskrárbreytingar sem umtalsverður hluti þings eða þjóðar er á móti.

Þó að það verði aldrei í gadda slegið að ekki verði hægt að breyta stjórnarskrá nema um það sé rík samstaða er engu að síður reynt að stuðla að því, með þeim tillögum sem hér er að finna, að breytingarnar byggi á samstöðu í þinginu og njóti að minnsta kosti umtalsverðs stuðnings meðal kjósenda í landinu. Breytingar verði ekki ákveðnar af naumum meiri hluta á þingi eða eins og hægt er samkvæmt gildandi ákvæði — það er ekkert því til fyrirstöðu, miðað við gildandi stjórnarskrá, að 32 þingmenn samþykki stjórnarskrárbreytingu, það sé efnt til þingkosninga og sami meiri hluti, sem þess vegna þarf aðeins að vera 32 þingmenn, samþykki breytinguna aftur þrátt fyrir harða andstöðu annarra. Á margan hátt tel ég því að hið efnislega innihald þeirrar breytingar sem hér er lögð til leiði til meiri festu, meiri samstöðukröfu, en núgildandi stjórnarskrá í raun felur í sér.

Á móti kemur að ekki er nauðsyn að fara, miðað við þessa tillögu, með stjórnarskrárbreytingu fyrir tvö þing með kosningum á milli en segja má að heildstætt metið feli þetta ekki í sér minni fyrirstöðu eða lægri þröskulda gagnvart því að stjórnarskrá sé breytt en nú er hin almenna regla.

Ég tek undir með hv. þm. Brynjari Níelssyni sem hér talaði áðan um að á þeirri aðferð sem felst í frumvarpinu væru ákveðnir gallar. Mér finnst eins og honum í sjálfu sér ekki áferðarfallegt að í gildi séu næstu fjögur árin tvær mismunandi leiðir til að breyta stjórnarskránni. Það má lifa við það, tel ég, en ég er þeirrar skoðunar að það sé í prinsippi óheppilegt. Við þekkjum það hins vegar úr ýmsum löndum að til eru fleiri en ein leið til að breyta stjórnarskrá og í sumum löndum er það varanlegt fyrirkomulag að hægt er að breyta stjórnarskrá með fleiri en einum hætti. Reynslan hefur leitt í ljós að yfirleitt er ein leið alltaf valin og hitt er frekar tómur lagabókstafur. En það er ekki óþekkt að í stjórnarskrá séu mismunandi leiðir á sama tíma til að breyta stjórnarskrá. Ég er líka sammála hv. þm. Brynjari Níelssyni um það að ákvæði um stundarsakir eða ákvæði til bráðabirgða í stjórnarskrá er ekki áferðarfallegt þó að við það megi lifa, eins og ég sagði áðan.

Ég tel með öðrum orðum að sú breyting sem hér er lögð til geti gengið upp og mun styðja hana. Ég bendi á að margt af því sem þarna er að finna á sér rætur í eldri tillögum, meðal annars frá stjórnarskrárnefnd sem starfaði á árunum 2005–2007 og skilaði af sér tillögu sem gekk út á það að breytingarákvæði yrði að mörgu leyti í sömu átt og hér er að finna þó að útfærslan væri samt ekki alveg eins.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal lagði fram oftar en einu sinni á síðasta kjörtímabili frumvörp sem fólu í sér breytingu í þessa veru. Ég neita því ekki að mér finnst líka ávinningur af því að fyrir liggi sameiginlegur skilningur flestra stjórnmálaflokka hér á þingi á því að stjórnarskrármál verði sett í þann farveg sem kynnt hefur verið að forsætisráðherra muni beita sér fyrir með skipun nefndar sem tilnefnd verði af fulltrúum allra þingflokka á þingi sem eigi að vinna í þessum málum áfram. Þegar ég met þetta heildstætt tel ég ekki ástæðu til að standa gegn þeirri breytingu, ég get stutt hana eins og hún liggur fyrir.

Ég bendi á að aðeins er um að ræða tímabundið ákvæði sem samkvæmt orðanna hljóðan gildir bara á því kjörtímabili sem nú er nýhafið og hlýtur að verða endurskoðað fyrir 2017. Ég sæi fyrir mér að það yrði eitt af viðfangsefnum þeirrar stjórnarskrárnefndar sem reikna má með að forsætisráðherra skipi innan skamms að velta því upp, sem menn náðu kannski ekki í fyrravetur, hvort mönnum lítist svo á og telja að til þess standi rök að breyting í þá veru sem hér liggur fyrir geti orðið varanleg, ekki tímabundin. Það er augljóslega eitt af þeim viðfangsefnum sem menn þurfa að skoða í þessu samhengi auk annarra þátta sem nefndir hafa verið og hv. þm. Brynjar Níelsson benti meðal annars á. En ég ætla ekki að fara nánar út í það. Ég geri mér grein fyrir því að í þessum sal höfum við mismunandi sýn á það hversu víðtækar stjórnarskrárbreytingar eigi að fara út í og hér er aðeins um að ræða tillögu sem felur í sér leið, eins og einhver orðaði það áðan, hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hygg ég, til að opnaður verði ákveðinn gluggi. En til að nýta það svigrúm sem frumvarpið felur í sér held ég að það hljóti að vera sameiginlegur skilningur okkar allra að það verði þá aðeins nýtt að um það sé rík og góð samstaða því að það er það markmið sem við hljótum öll að ganga út frá þegar við afgreiðum þetta mál.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég tel að við eigum að stíga þetta skref að þessu sinni. Ég hefði sjálfur getað hugsað mér að hafa þetta með eilítið öðrum hætti eins og ég hef rakið. Þetta er kannski ekki áferðarfallegasta lausnin, hvernig þetta er allt sett upp og hvernig þetta ber að, en ég held að við það megi lifa. Það er undir okkur komið, sem erum í þessum sal, að nýta þetta sem svigrúm til að vinna að stjórnarskrárbreytingum sem við getum sameinast um þannig að stjórnarskráin og stjórnarskrármálefni verði ekki sá vígvöllur sem við höfum séð á síðustu árum.