142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[18:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Nú kemur til afgreiðslu á þessu þingi mál sem var afgreitt á síðasta þingi með tiltölulega litlum stuðningi þingsins, þ.e. einungis með 25 atkvæðum. Við þá atkvæðagreiðslu ákvað ég að sitja hjá og greindi frá því að ég teldi grundvallaratriði að til þess að þessi breyting gæti tekið gildi þyrfti að liggja fyrir samkomulag um það, sem ég hefði trú á, hvernig standa ætti að vinnu við breytingar á stjórnarskránni í framhaldinu. Undanfarnir dagar hafa verið nýttir til að ná sameiginlegum grundvelli um skipun níu manna nefndar sem fær það verkefni á kjörtímabilinu og við það fyrirkomulag er ég sáttur.

Ég ætla að greiða atkvæði með þessari breytingu í þeirri trú að þingmenn allra flokka leggi sitt af mörkum til að láta af þeim átökum sem voru einkennandi á síðasta kjörtímabili um (Forseti hringir.) breytingar á stjórnarskránni og sætti sig við að breytingar á henni á að gera í sem ríkastri sátt. (Forseti hringir.) Það endurspeglast í ákvæðum þessa frumvarps og ég hef trú á því að þingið rísi undir væntingum þjóðarinnar um að vinna þetta mál í sem mestri samstöðu þannig að þegar verkinu er lokið muni öll þjóðin fylkja sér að baki niðurstöðu.