142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[19:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessi hringlandaháttur er með miklum ólíkindum, að hefja nýtt kjörtímabil á því að flytja frumvarp til laga um að fresta samkomudegi Alþingis. Það hefur ekki gerst í þau tíu ár sem ég hef setið á Alþingi og sennilega ekki lengi fyrir þann tíma. Festa í samkomudegi þings er ríkur þáttur í skipulagi í hverju landi og er hafður í hávegum alls staðar í kringum okkur.

Óvenjulegt, segir hæstv. fjármálaráðherra að leggja fram fjárlagafrumvarp fjórum og hálfum mánuði eftir kosningar. Það er ekkert sérstaklega óvenjulegt við það og hefur margoft verð gert. En hvers vegna er þetta þá? Augljóslega er ríkisstjórnin að hefja feril sinn á því að fresta vandanum með því að fara einhliða fram og breyta lögum um samkomudag þingsins. Hvers vegna er það? Vegna þess að ríkisstjórnin hefur augljóslega ekki hugmynd um hvernig hún ætlar að loka sínum fyrstu fjárlögum nú rúmlega tveimur mánuðum eftir kosningar.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort þetta afhjúpi ekki bara algerlega að sá 10 milljarða tékki sem var gefinn út á kostnað skattgreiðenda til útgerðarmanna fyrr í dag, lækkunin á veiðigjaldinu — ríkisstjórnin hefur enn þann dag í dag ekki hugmynd um hvernig eigi að fjármagna hann. Við höfum að minnsta kosti ítrekað spurt hæstv. fjármálaráðherra hvort hann treysti sér til að kynna hér á haustinu fjárlög sem eru réttu megin við núllið og við höfum enn ekki fengið skýrt svar þar um.

Ég ítreka spurninguna: Er ekki bara verið að fresta samkomudegi Alþingis vegna þess að ríkisstjórnin hefur gengið fram af svo mikilli skammsýni í því að gefa eftir tekjur til útgerðarmanna og auðmanna og annarra hópa í samfélaginu á sínum fyrstu dögum að hún hefur ekki hugmynd um hvernig á að loka fjárlögum í haust?