142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[19:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Reglufesta og agi eru grundvallaratriði í ríkisfjármálum. Í landinu eru í gildi lög um það á hvaða degi þjóðþingið eigi að koma saman og hvenær ríkisstjórn er skylt að leggja fram fyrir þing og þjóð til opinberrar umræðu frumvarp til fjárlaga landsins með öllum helstu ráðstöfunum sem varða alla geira samfélagsins og öll heimili í landinu. Þetta er af ástæðum.

Það hlýtur að vera býsna brýn neyð sem knýr nýja ríkisstjórn til að fara fram einhliða með frumvarp til að breyta lögum að þessu leytinu til og víkja frá lögbundinni skyldu sinni til að leggja fram fjárlagafrumvarp. Það getur ekki vitnað um neitt annað en fullkomið ráðleysi um það hvernig eigi að mæta þeim ákvörðunum sem ríkisstjórnin hefur tekið á fyrstu vikum sínum, um að gefa eftir 10 milljarða skatttekjur af 5 þúsund ríkustu heimilum í landinu og gefa eftir 10 milljarða til útgerðarmannanna í landinu, enda kemur ekkert fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra um að hann viti hvernig ríkisstjórnin, eftir aðeins örfáar vikur, ætli að bregðast við því.

Það sýnir einfaldlega og sannar þessa neyðarlegu stöðu ríkisstjórnarinnar að hún skuli láta það verða sitt fyrsta verk að fresta vandanum með því að flytja frumvarp til laga um að komast hjá því að leggja fram á lögbundnum degi áætlanir sínar í ríkisfjármálum.