142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[19:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður segir að reglufesta og agi í ríkisfjármálum sé algert grundvallaratriði. Samt er það nú þannig að á síðasta kjörtímabili fór ríkisstjórn sem hann studdi á hverju einasta ári um tugi milljarða fram úr fjárlögum, hverju einasta ári, 2009, 2010, 2011 og 2012. Nú er árið 2013 og það sama er að fara að gerast.

Hann getur komið hingað upp og orðið talsmaður reglufestu og aga og ég mun styðja hann í þeim málflutningi. Við munum verða skoðanabræður í því að reglufesta og agi skiptir mjög miklu. Það hefur bara óskaplega lítið að gera með það þingmál sem við ræðum hér. Þetta þingmál snýst einfaldlega um það að á kosningaári sé eðlilegt að gefa stjórnkerfinu meira svigrúm, annars vegar vegna þess slaka sem myndast í aðdraganda kosninga í stjórnkerfinu vegna þess að ákvarðanir eru ekki teknar og hins vegar vegna þess tíma sem fer til spillis að kosningum afstöðnum við að halda uppi dampi í fjárlagagerðinni.

Það eru dæmi um það í öðrum löndum að þetta sé svona. Við erum einungis að tala um það hér að skapa þriggja vikna frest. Við færum þingsetningardaginn aftur til þess sem segir í stjórnarskránni, við færum þingsetningardaginn aftur til þess sem vaninn var lengi vel. Á sínum tíma kom þingið saman 10. október. Svo var sá dagur færður fram til 1. október, nú stendur í þingsköpum að þingið komi saman annan þriðjudag í september. Það kann að það verði hinn nýi reglubundni samkomudagur þingsins og sá dagur sem fjárlög verða að jafnaði lögð fram en það verður þá áfram mín skoðun að þegar er kosið, sérstaklega þegar í kjölfarið er síðan haldið sumarþing, sé ástæða til að gefa nýrri ríkisstjórn rýmri tíma til að ljúka fjárlagagerðinni þannig að hún verði sterkari grundvöllur undir umræðu um fjármál ríkisins í kjölfarið í þinginu.