142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:12]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna framkomnum hugmyndum fyrrverandi stjórnarþingmanns um að standa ætti betur að því að skila inn tekjufrumvörpunum en gert hefur verið undanfarin ár. Ég sat í fjárlaganefnd á síðasta ári. Fjárlagafrumvarpið var lagt fram í september þegar þing kom saman en tekjufrumvörpin komu í lok nóvember. Þó hafði sú ríkisstjórn setið í þrjú ár og var að skila sínu síðasta frumvarpi. Vissulega var það svo að ákvæðinu hafði verið frestað. Ég er sammála hv. þingmanni um að nauðsynlegt sé að leggja fram samhliða tekjufrumvörpin og fjárlög til að það sé sýnilegt í hvað stefnir og hvernig ríkisstjórnin ætlar sér að vinna með þau fjárlög sem hún leggur fram. Þar er ég sammála hv. þingmanni.

Mér finnst hins vegar gæta sérstakrar skoðunar þegar menn tala um að aðrir þurfi að vanda sig — ég vona svo sannarlega að ný ríkisstjórn vandi sig og sýni þinginu meiri virðingu en fráfarandi ríkisstjórn gerði með framlagningu frumvarpa sem komu mörg hver allt of seint; og stórt og mikið frumvarp síðast í vor, um breytingar á almannatryggingakerfinu, að mig minnir viku fyrir þinglok, eitthvað áþekkt, en vildi samt fá umræðu um það í þinginu.

Ég tek undir orð hv. þingmanns um að þessu verklagi eigi að breyta. Núverandi ríkisstjórn er að reyna, með þessari breytingartillögu hér, sem er einskiptisaðgerð að hausti, að verða fær um að leggja fram fjárlög og tekjufrumvörpin samhliða til að fjárlaganefnd geti unnið með hvort tveggja í senn og þurfi ekki að bíða eftir tekjufrumvarpi í marga mánuði eins og gerst hefur undanfarin ár. Einnig til að hægt verði að afla umsagna frá öðrum nefndum þingsins um fyrirliggjandi tekjufrumvörp sem tengjast fjárlögunum. Að því leyti er ég sammála hv. þingmanni en mér finnst hins vegar umræðan um að núverandi ríkisstjórn eigi að vanda sig — ég fagna þeirri umræðu og vona að hún geri það en mér finnst það koma úr svolítið glærri átt. Ég verð að segja það.