142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:16]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Ríkisstjórnin biður um frest til 1. október til að geta lagt fram fjárlagafrumvarp og tekjuöflunarfrumvörp samtímis, sem er mjög góð regla. Hún telur sig ekki geta gert það 10. september þegar þing ætti að koma saman samkvæmt þingsköpum og því er verið að reyna að breyta þingsköpunum til að ná þessu fram.

Einn klárasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar á að hafa sagt eitthvað á þá leið að því minna sem þingið komi saman þeim mun betra sé það fyrir stjórnina. Það er Davíð Oddsson sem á að hafa sagt þetta. Ég er alveg sammála honum um þetta. Þingið hefur ákveðið eftirlitshlutverk gagnvart stjórnvöldum og getur krafið stjórnvöld svara og slíkt og því minna sem þingið kemur saman þeim mun þægilegra er það fyrir stjórnina.

Samkvæmt þingsköpum á þingið að koma saman 10. september, starfa á þessu þingi í 12 daga fram að 1. október. Ef stjórnin þarf þennan frest fram til 1. október — samkvæmt stjórnarskrá getur haustþing ekki komið saman nema fyrsta mál sé fjárlagafrumvarp og tekjuöflunarfrumvörp á að leggja fram á sama tíma, sem er góð regla — þá er það gott og gilt og hægt að taka tillit til þess. Þá komum við saman á haustþingi 1. október.

Það er annað mál að við séum líka að fækka þingdögum í september. Þessi stubbur sem verið er að tala um á að vera sex dagar. Það væri alveg hægt að hafa þann stubb í tólf daga. Við höfum kallað eftir því, við píratar, þegar við höfum verið að ræða þessi mál á foringjafundum og þingflokksformannafundum, að við sitjum þá bara tólf daga í stað þess að sitja í sex daga. Þannig getum við betur uppfyllt eftirlitshlutverk okkar og sinnt öðrum mikilvægum störfum þar til haustþing kæmi þá saman 1. október.