142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst rökfærsla hv. þingmanns vera svona: Af því að hæstv. ríkisstjórn telur að hún geti ekki komið fram fjárlagafrumvarpi og tekjuöflunarfrumvörpum fyrr en 1. október þá ber að fallast á það. Spurning mín til hv. þingmanns og Pírata er þessi: Hvað ef þessi sama ríkisstjórn hefði komið og sagt við þingið: Við getum þetta ekki fyrr en 1. nóvember eða 1. desember, á þá að fallast á það bara af því að þeir telja sig ekki geta það? Er ekki hv. þingmaður búinn að vera í fjölmiðlum og segja við okkur hér í þinginu að hann og hans félagar hefðu ætlað að beita málþófi til að koma í veg fyrir samþykkt veiðigjaldafrumvarps sem fellir niður tekjur ríkisins um 10 milljarða? Ég spyr hv. þingmann: Finnst honum að það sé hlutverk þingsins að draga ríkisstjórnina upp úr díkinu sem hún mokaði fyrir sjálfa sig?