142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:24]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil fyrst kanna hvort frummælandi málsins, hæstv. fjármálaráðherra, er einhvers staddur viðstaddur og ætlar að vera við umræðuna.

(Forseti (SilG): Forseti lætur athuga það.)

Ég óska eftir því að hæstv. fjármálaráðherra komi í salinn og mun ekki hefja mál mitt fyrr.

(Forseti (SilG): Forseti tekur það til greina og við hinkrum augnablik. — Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur nú gengið í salinn.)

Frú forseti. Ég verð að segja eins og er að mér er nokkuð þungt í skapi yfir því máli sem hér er til umræðu. Það er vegna þess að á síðasta kjörtímabili veitti ég forustu þingskapanefnd sem fjallaði um þingsköp Alþingis og var skipuð þingmönnum úr öllum stjórnmálaflokkum. Innan þeirrar nefndar var mjög góður vinnuandi en vitaskuld voru alls ekki allir sammála um alla hluti sem þar voru ræddir. Gerðar voru margvíslegar breytingar á þingsköpum sem allir nefndarmenn stóðu að en sú regla var viðhöfð að ekki voru lagðar til breytingar á þingsköpum sem einhver nefndarmaður, einhver fulltrúi einhvers flokks, lagðist gegn. Þetta var vegna þess að við vildum hafa það vinnulag að tryggja góða samstöðu og góða einingu um þann ramma sem við höfum um þingstörfin. Burt séð frá því hvaða skoðanir við höfum svo um einstök mál og tökumst á um pólitískt eins og eðlilegt er þá vildum við að það væri sameiginlegur skilningur og sameiginleg afstaða til þeirra leikreglna sem giltu í samskiptum og starfi á vettvangi Alþingis. Mér finnst því miður að þetta frumvarp, og það sem á bak við það liggur, beri ekki þau einkenni. Þess vegna er ég afar ósáttur við að hæstv. ríkisstjórn, hæstv. forsætisráðherra, flytji þetta frumvarp.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur voru ýmsar hugmyndir reifaðar á fundum forustumanna flokkanna sem líklega hefði getað náðst meiri samstaða um en það varð ekki niðurstaðan. Þingsköp Alþingis eru ramminn um starfshætti Alþingis og það er mikilvægt að einhugur sé um þann ramma óháð því hverjir sitja í ríkisstjórn og hverjir eru í stjórnarandstöðu. Þingsköpin eiga ekki að lúta breytingum sem eingöngu stafa af breyttum styrkleika flokka milli kjörtímabila.

Á síðasta kjörtímabili starfaði, eins og ég gat um, þingskapanefnd með fulltrúum allra flokka þar sem bæði stjórn og stjórnarandstaða voru í forustu. Ég vek athygli á því að ég beindi einni spurningu sérstaklega um framhald þingskapavinnunnar til hæstv. fjármálaráðherra sem hann hafði ekki ráðrúm til að svara á stuttum tíma hér áðan og ég vænti þess og óska eftir því að hann bregðist við þeim spurningum.

Meðal þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á starfsháttum Alþingis nýverið er að flytja samkomudag þingsins að hausti til fram til annars þriðjudag í september í stað 1. október sem verið hafði samkomudagur þingsins um langt skeið. Jafnframt var svokallað septemberþing lagt af. Einn megintilgangur þeirra breytinga var að skapa þinginu meira svigrúm til að fjalla um fjárlagafrumvarp og tengd mál. Reynslan sýnir að mikilvægt er að þingið hafi rúman tíma til þessa, enda fer Alþingi með fjárstjórnarvaldið. Ráðuneyti og ríkisstjórn hafa marga mánuði til að undirbúa fjárlagafrumvarp og önnur tengd frumvörp meðan þingið hefur aðeins nokkrar vikur í því skyni. Breytingin sem gerð var þegar samkomudegi Alþingis var flýtt var mikilvæg í því augnamiði að bæta vinnubrögð þingsins og styrkja stöðu þess. Sú breyting sem nú er lögð til er skref til baka til lakari vinnubragða þingsins.

Með lögum nr. 85/2012 varð sú breyting á þingsköpum að kveðið var á um að frumvörp um breytingar á lögum sem útgjöld og tekjur fjárlagafrumvarps byggjast á skuli lögð fram samhliða fjárlagafrumvarpi. Það var einnig gert í því augnamiði að vanda betur vinnu Alþingis við fjárlög ríkisins. Það gætir misskilnings í því sem hér hefur komið fram í umræðunni, meðal annars hjá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, að gildistöku þessa ákvæðis hafi verið frestað. Henni var ekki frestað. Þessi breyting kom inn í lögin á vormánuðum 2012 og strax þegar frumvarpið var lagt fram var ákveðið að þetta ákvæði tæki einfaldlega gildi síðar. Það er ekki rétt að tala um frestun á gildistöku ákvæðisins.

Þar sem hér var um mikla breytingu að ræða, sem kallaði á verulegan undirbúning af hálfu fjármálaráðuneytisins, var sú ákvörðun einmitt tekin að ákvæðið tæki gildi 1. september 2013 en lögin tóku að öðru leyti gildi við upphaf 141. löggjafarþings. Með því var tryggt að nægur undirbúningstími gæfist til að undirbúa þessar breytingar. Á grunni þeirrar vinnu sem farið hefur fram í ráðuneytum undanfarna mánuði við undirbúning fjárlagafrumvarps hefur ný ríkisstjórn að mínu mati nægan tíma til að koma sínum áherslum inn í þá vinnu og mér finnst að það eigi ekki að stytta þann tíma sem þingið hefur til ráðstöfunar í fjárlagavinnu.

Það sem hér gerist er að ríkisstjórnin segir að hún þurfi lengri tíma til að undirbúa fjárlagafrumvarp og tengd frumvörp. Ráðuneytin hafa að sjálfsögðu verið að undirbúa fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár burt séð frá kosningum og ríkisstjórnarskiptum. Ný ríkisstjórn, sem tekur við í maí, fær nú fjóra til fimm mánuði til að vinna sínar nýju áherslur inn í þá grunnvinnu sem farið hefur fram í ráðuneytunum. Ég geri ekki ráð fyrir því að allri þeirri vinnu verði kastað fyrir róða. Það hlýtur að vera byggt á þeirri undirbúningsvinnu sem fram hefur farið í ráðuneytinu.

Að mínu viti hefur ríkisstjórnin haft nægan tíma og á að hafa nægan tíma til að koma sínum áherslum inn í þá vinnu en það sem gerist er að skemmri tími verður fyrir þingið til að fjalla um fjárlagafrumvarpið og tengd frumvörp. Það finnst mér vera mjög bagalegt vegna þess að tilgangurinn upphaflega var að gefa þinginu meiri tíma, styrkja stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu og nú verður sá tími styttri sem þessu nemur. Þegar þingið hefur aðeins í raun örfáar vikur til að fjalla um fjárlagafrumvarpið þá munar um einn kepp í þeirri sláturtíð. Það munar um þrjár vikur í því efni fyrir fjárlaganefnd Alþingis. Ég harma því að þessi leið hafi verið farin, bæði efnislega en líka harma ég það sérstaklega að ekki skuli vera reynt að ná algerri samstöðu um þessar breytingar á þingskapalögunum. Ég vonast til þess og treysti því að þetta sé ekki upphaf á einhverri slíkri vegferð hjá núverandi hæstv. ríkisstjórn að við megum búast við því að þingsköpum verði í framtíðinni breytt án þess að allir standi að því.