142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef fullan skilning á þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður teflir hér fram. Ég ætla að byrja á því að nota tímann til að veita svar við spurningu sem mér gafst ekki tími til að bregðast við í andsvari en þar var spurt hvort áfram yrði unnið í breiðri samstöðu um breytingar á þingskapalögunum í þingskapanefnd og hvort til álita kæmi að stjórnarandstaðan kæmi þar að forustunni. Mér finnst það mjög vel koma til greina. Mér finnst þetta ekki vera rétti staðurinn eða vettvangurinn til að útkljá það eða taka ákvörðun um það en svo sannarlega stendur ekkert annað til en eiga áfram gott samstarf um þróun þingskapalaganna.

Mér finnst líka rétt að halda því til haga, þegar við ræðum þetta frumvarp, þá breytingu sem af því leiðir, að hún er eins skiptis og sjónarmið um að ávallt skuli leita samráðs eru eftir sem áður algerlega gild. Þó verður að hafa það í huga í þetta skipti að ekki er verið að breyta þingskapalögunum varanlega, það verður að taka það með í umræðuna.

Rétt er það að með því að færa þingsetningardaginn fram og láta fjárlög og tekjuöflunarfrumvörpin birtast þannig þremur vikum fyrr en ella þá er þinginu skapaður rýmri tími. Ég vil þá bæta því við í þá umræðu að ég tel að breytt verklag geti gert miklu meira til að gera vinnuna í þinginu og sérstaklega í fjárlaganefnd skilvirkari og tel reyndar að breytt verklag í nefndinni á undanförnum árum hafi skilað mjög miklum árangri og hægt er að halda því áfram. Ef við bætum síðan við nýrri umgjörð fyrir framlagningu fjárlagafrumvarpsins, sem gæti leitt af nýjum lögum um opinber fjármál, erum við komin á enn betri stað. Þá verða þessar tvær til þrjár vikur á haustin í sjálfu sér afskaplega léttvægar miðað við þá miklu þróun sem getur orðið með öðrum breytingum.