142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þegar sykurreyrsuppskeran brást á Kúbu tók félagi Kastró sig til og frestaði jólunum. Þegar hæstv. fjármálaráðherra dettur ofan í díki sem hann bjó sjálfur til og sér ekki út úr fjármálum ríkisins þá frestar hann sínum jólum, þ.e. framlagningu fjárlagafrumvarpsins.

Nú sé ég að hæstv. fjármálaráðherra fer úr salnum þannig að ég ætti kannski, líkt og sá maður sem talaði hér á undan mér, að bíða eftir að hann komi aftur því að ég hef að minnsta kosti eina brýna spurningu til hans. En ég get kannski, til samkomulags við hæstv. forseta, lengt mál mitt sem því nemur. Mér er það þó ekkert sérstakt kappsmál. Ég þarf hæstv. fjármálaráðherra til að spyrja hann einnar spurningar.

Ég er algerlega sammála félaga Svejk sem sagði að það ætti að vera agi í hernum. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að vera festa á þessum hlutum og mér finnst það heldur ómyndugt og talsvert ræfilslegt af hinu háa Alþingi að grípa til þess ráðs að taka upp einskiptisbráðabirgðaákvæði, svo að vitnað sé í hinn ágæta hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, formann VG. Mér finnst lítill bragur á því að byrja þingið á þann veg en hins vegar er það í stíl við ýmislegt fleira því að flestu af því sem þessari ríkisstjórn þótti mest um vert að ná fram áður en hún kom til þings hefur verið frestað. Ég ætla ekki að fara að raska kvöldkyrrð framsóknarmanna með því að rifja upp að það mál sem þeir háðu kosningabaráttuna um og lögðu mesta áherslu á að koma fram með hér á þinginu hefur ekki sést. Í staðinn var lögð fram eins konar vinnuáætlun um það hvernig ætti að skoða framkvæmd þeirra kosningamála og það verð ég nú að segja hæstv. fjármálaráðherra til hróss að hann er eftirlátssamur maður og allra náðarsamlegast leyfði hann að tillögur Framsóknarflokksins yrðu skoðaðar í nefnd. En þetta er að verða eins konar frestunarstjórn og þess vegna er ákveðinn stíll yfir þessu hjá hæstv. fjármálaráðherra, ég verð að segja það.

Mér finnst þetta líka nokkuð umhendis miðað við að það voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem lögðu mesta áherslu á að taka upp þessa nýju háttsemi, þ.e. það voru þeir sem töldu að ómögulegt væri að halda þingstörfum vel áfram inn í framtíðina án þess að tryggt væri að þingmenn fengju aukinn tíma og meiri tíma til að meta tekjuöflunarfrumvörpin og þá samhliða fjárlagafrumvarpinu. Það er ekkert óskynsamlegt, ég get fallist á það, en það voru þeir sem höfðu allt frumkvæði og lögðu allan þrýsting á það. Síðan koma þeir, á því fyrsta ári sem lögin sem þeir áttu upptök að koma til framkvæmda, og biðja um frestun á málinu. Það er það sem ég átti við þegar ég sagði að mér fyndist það nokkuð umhendis, og með leyfi allra viðstaddra, töluverð ósvífni af Sjálfstæðisflokknum, að byrja nýtt þing með þeim hætti.

Mér fannst ræða hæstv. fjármálaráðherra ekki bæta úr skákinni. Hann taldi í sinni ræðu upp alls konar tilvik sem gætu komið upp og væri ekkert ólíklegt að gerðist þar sem, miðað við máls hans, kynni að vera nauðsynlegt að grípa til þess að taka aftur upp það sem er að vísu í munni hans einskiptisbráðabirgðaákvæði. Hvað þarf að endurtaka slíkt oft til að það hætti að vera bráðabirgðaákvæði? Mér heyrðist hæstv. fjármálaráðherra að minnsta kosti vera að láta glitta í það að það kæmi til mála af hans hálfu og meira en það að þessu væri breytt varanlega. Ástæðan er væntanlega sú sem hér var rifjuð upp af hv. þingmanni Pírata, sem talaði áðan, að stjórnmálamaður, sem ekki er lengur á pólitískum dögum hér heldur annars staðar, sagði að því lengur sem þing væri fjarri Alþingishúsinu þeim mun betur gengi að stjórna landinu. Auðvitað er það þannig og þessi hæstv. ríkisstjórn hefur ekkert verið að dylja það að hún vill koma þinginu burt vegna þess að þetta þing hefur ekkert verið óskaplega leiðitamt eða gott fyrir hæstv. ríkisstjórn.

Ég þarf ekki að rifja neitt sérstaklega upp í þeim efnum en þó finnst mér það í lagi, af því að hv. þm. Birgir Ármannsson hlustar af svo miklum áhuga, að rifja það upp að gamall leiðtogi lífs hans, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, skrifaði grein á dögunum þar sem hann sagðist ekki muna eftir jafn vondri byrjun nokkurrar ríkisstjórnar svo það er ekki nema von að hæstv. ríkisstjórn vilji koma þinginu frá og sem lengst í burtu og fá það sem síðast. Ég skil það vel en ég er á móti því. Og það á að vera agi í hernum. Ég veit að ég og hv. þm. Birgir Ármannsson erum sammála um að reglufestu hefur skort í stjórn þings og ríkisins líka. Látum það nú vera, frú forseti.

Ég er alltaf til í að hlusta á mótrök og eins og ég sagði áðan hef ég margsinnis hrósað hæstv. fjármálaráðherra fyrir það að hann kemur til dyranna eins og hann er klæddur og hann flýr ekkert umræður. Hann hefur alltaf verið maður til að standa fyrir sínu og færa rök fyrir máli sínu. En hann gerði það ekki í framsögu sinni fyrir málinu. Hvað sagði hæstv. fjármálaráðherra? Jú, hann sagði að kringumstæðurnar væru sérstakar. Hvað er svona sérstakt við þær? Það tekur einn mánuð að mynda ríkisstjórn sem er sögulega lítið, skammur tími. Þeir þingmenn sem börðust fyrir þessari breytingu hljóta að hafa gert ráð fyrir því að það tæki að minnsta kosti einn mánuð. Þingið hófst 6. júní og það er ekki búið að standa í mánuð. Nú hef ég ekki tölu á því á hversu mörgum vordögum ég hef verið hér en hitt er algerlega klárt að mörgum sinnum í sögu Alþingis hefur fyrsta þing eftir kosningar verið miklu lengur en núna. Það er einfaldlega rangt hjá hæstv. fjármálaráðherra þegar hann segir að þinghald hafi dregist. Það var ein af þremur röksemdum hans. Látum það vera. Meira að segja það getur verið smekksatriði. En þegar hæstv. fjármálaráðherra sagði að vegna hinna tveggja fyrri ástæðna sem hann rakti væri illframkvæmanlegt að koma fram bæði fjárlagafrumvarpi og tekjuöflunarfrumvörpum á réttum tíma þá segi ég: Hingað og ekki lengra.

Ég er búinn að vera hér í fleiri þing en margir þeir sem sitja í þessum sölum og þetta þarf að skýra út fyrir mér. Það liggur algerlega ljóst fyrir að eitt af best virku ráðuneytunum er fjármálaráðuneytið og þótt skipt sé um ríkisstjórnir heldur gangvirki þess áfram. Það malar og vinnur og vinnur vel, stundum fullvel fyrir smekk sumra. Það er alveg ljóst að hinn breiði rammi fjárlaganna hefur legið fyrir. Það eina sem er öðruvísi og er afbrigðilegt er það að hæstv. ríkisstjórn kemur hingað með frumvörp sem í einu vetfangi skera undan tekjum ríkisins 10 milljarða og það er það sem meðal annars þarf að finna og það vefst fyrir hæstv. ráðherra. Ég skil það mætavel. En er það illframkvæmanlegt á þremur mánuðum að finna leiðir til að skera á móti? Er það illframkvæmanlegt að finna aðgerðir til að afla tekna sem þýðir að hækka skatta eða þá bara fara eftir því sem liggur ódulið í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að hugsanlega eigi að auka skuldir ríkisins.

Hæstv. fjármálaráðherra þarf að skýra þetta út fyrir mér. Það getur vel verið að aðrir þingmenn í þessum sal hafi það mikla þingreynslu og séu það greindir að þeir hafi skilið þetta en ég skildi það ekki.

Svo ætla ég, frú forseti, að bíða þangað til í seinni ræðu minni með að útskýra af hverju það er rangt að ýmsu leyti, ekki að öllu leyti en að ýmsu leyti, hjá hæstv. fjármálaráðherra að hann hafi fengið í fangið eitthvað sem var ófyrirséð og hann kallar 30 milljarða högg. Það er ekki rétt hjá honum.