142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í tilefni af orðum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar finnst mér rétt að setja þetta aðeins í samhengi, það sem hann nefnir varðandi aðkomu þingmanna Sjálfstæðisflokksins, þar á meðal mín, í þingskapanefnd á síðasta kjörtímabili í sambandi við að fá þá breytingu í gegn sem fyrst og fremst laut að því að tekjuöflunarfrumvörp yrðu lögð fram samhliða fjárlagafrumvarpi. Ástæðan fyrir því snerist ekki um 10. september eða 1. október. Ástæðan fyrir því var að hér hafa ár eftir ár komið fram tekjuöflunarfrumvörp, grundvallarfrumvörp á sviði skattamála, ekki í september, ekki í október, ekki einu sinni í nóvember heldur jafnvel í desember. Þar liggur vandamálið.

Í mínum huga var vandamálið ekkert endilega það að fjárlög væru lögð fram tveim vikum fyrr eða þrem vikum fyrr. Vandamálið, hið raunverulega vandamál sem var rót þeirra breytinga sem hér eru til umræðu, var að tekjuöflunarfrumvörpin, grundvallarfrumvörp á sviði skattamála, voru að koma hér fram kannski þrem vikum fyrir þinglok fyrir jól, jafnvel seinna, og þingið hafði svo til engan tíma til að fara yfir þau flóknu mál sem þar var um að ræða. Hvað næst fram jafnvel þó það frumvarp sem hér liggur fyrir verði samþykkt og þessi frestun um þrjár vikur verði samþykkt? Það liggur fyrir að sú breyting stendur, meginbreytingin, að tekjuöflunarfrumvörpin komi fram samhliða fjárlagafrumvarpi við upphaf haustþings, í byrjun október. Það er stóra breytingin. Það sem hv. þingmenn eru að gera ágreining um hérna er smáatriði í því samhengi, fullkomin smáatriði, þannig að ég held að við þurfum að hafa það í huga þegar við skoðum þetta frumvarp.

Vandamálið snerist ekki um fáeina daga, jafnvel fáeinar vikur, í september. Vandamálið snerist um það þegar fjármálaráðherra kom með skattafrumvörp um mánaðamót nóvember/desember.