142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þm. Össur Skarphéðinsson erum sammála um margt í sambandi við þetta fyrirkomulag í meginatriðum. Ég held til dæmis að við séum sammála um að það sé gott að fjárlög komi snemma fram og að æskilegt sé að tekjuöflunarfrumvörp komi fram samhliða fjárlagafrumvarpi. Tekjuöflunarfrumvörpin eru auðvitað samhangandi við þau útgjaldaáform sem birtast í fjárlagafrumvarpi. Við þekkjum það frá fyrri árum að þar er um að ræða samspil og þeim mun óþægilegra þegar menn ræða fjárlög fram eftir öllu hausti án þess að fyrir liggi tillögur ríkisstjórnar um fjáröflun eða breytingar á fjáröflunarfyrirkomulagi.

Eins og ég rakti í fyrra andsvari var tilgangur þeirra breytinga sem hér er um að ræða fyrst og fremst sá að tryggja að tekjuöflunarfrumvörpin fengju viðhlítandi umræðu í þinginu. Hv. þm. Helgi Hjörvar, fyrrverandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar, getur staðfest að það hefur ábyggilega verið mjög óþægilegt að vera í hans sporum sem formaður í þeirri nefnd og fá í fangið flókin skattafrumvörp örfáum dögum fyrir þinglok, tveimur til þremur vikum fyrir þinglok fyrir jól og þurfa að afgreiða þau, stundum án þess að menn gætu treyst því að þeir útreikningar og þær forsendur sem þar lágu til grundvallar væru réttar. Eins og oft kom á daginn.

Við vorum að bregðast við ákveðnu vandamáli. Þrátt fyrir þá tímabundnu bráðabirgðabreytingu sem hér er lögð til stefnir í að veruleg framför verði frá því sem hér hefur verið á flestum þeim þingum, hygg ég, sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur setið. Ég hygg að þetta verði töluvert betra nú í haust en hann þekkir, bæði af reynslu sinni úr ríkisstjórn og stjórnarandstöðu. Ef tekjuöflunarfrumvörp koma fram snemma í október er um að ræða næstum því tveggja mánaða flýtingu á þessum mikilvægu málum miðað við það sem við höfum séð á undanförnum árum.