142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[21:00]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er tekinn að hníga að aldri og minni mitt að reskjast þannig að til þess að geta svarað því mjög nákvæmlega þá þyrfti ég að leita aftur í Alþingistíðindi. Það breytir ekki hinu að rök hæstv. fjármálaráðherra hafa verið ákaflega veikger. Einu rökin sem hann hefur í reynd lyft sem málefnalegum rökum af sinni hálfu eru þau að hann hafi fengið í fangið stóran bagga óleystan, 30 milljarða. Og þá verð ég að rifja það upp — og ætla kannski að reyna að hnappa þeirri ræðu sem ég ætlaði að flytja hér á tíu mínútum síðar í eina og hálfa mínútu — að þessir 30 milljarðar voru svona: Það voru 15 milljarðar ef ég man rétt, sem voru vegna þess að gjaldfæra þurfti framlag Íbúðalánasjóðs. Ja, við fundum það nú í umræðunni í dag hvert mátti rekja það. Ég sagði fyrr á þessu þingi að það væri vissulega áfall sem menn þurfi að grípa til viðbragða við en ég hef verið mjög ósáttur við að hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki beitt réttum tölum þegar hann hefur verið að tala um þetta.

Hann talaði hér dögum saman um tölur sem komu úr þriggja mánaða uppgjöri ríkisins en þegar menn skoða fjögurra mánaða uppgjörið blasir ekki sama staða við og hann hefur aldrei leiðrétt það. Þegar við skoðum fjögurra mánaða uppgjörið eru tekjurnar við það að sleikja áætlunina og gjöldin eru undir henni. Það hefur mér þótt ósanngjarnt hjá hæstv. ráðherra, og hann á bara að gangast við því, að hinar ófyrirséðu aðstæður skapaði hann sjálfur. Með ákaflega sérkennilegum hætti ákvað hann — sem ég einlæglega tel hreina gjöf til stórútgerðarinnar — að lækka veiðigjaldið svo svakalega að eitthvað hlýtur undan að láta. En ég hélt ekki endilega að það sem undan léti væru lög um samkomudag Alþingis.