142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[21:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna orða hv. þingmanns er ekki annað hægt en að taka boltann. Þessi vinna var ekki sett af stað til þess að við stæðum hér nokkrum missirum síðar og bærum fyrir okkur að menn hefðu áður fyrr á árunum verið svo óttalega slappir í þessu. Það afsakar það ekki að menn geti ekki haldið lög og aga og reglufestu í ríkisfjármálum. Það er út af fyrir sig alveg rétt hjá þingmanninum, sem loksins kom fram undir lok máls hans, að það að tekjuöflunarfrumvörp kæmu seint fram var ekki bundið við síðustu ríkisstjórn. Það var ekki bara í tíð síðustu ríkisstjórnar, hún hafði sennilega ein ríkisstjórna sæmilega gilda ástæðu til að koma seint fram með þau því að efnahagslíf þjóðarinnar hafði hrunið og ríkissjóður var rekinn með 200 þús. millj. kr. halla. Það var nokkur handleggur að reiða fram tekjuöflunarfrumvörpin til að mæta þeim ósköpum en ríkisstjórnir á undan henni höfðu ár eftir ár, kjörtímabil eftir kjörtímabil, komið allt of seint fram með tekjuöflunarfrumvörp. Við vorum fyrir örfáum missirum algjörlega sammála um að þetta væri óhæfa og að við þyrftum að fá þessa hluti miklu fyrr hingað inn.

Í Bandaríkjunum kemur fjárlagafrumvarpið inn í lok febrúar en hér treysta menn sér ekki til að leggja það fram í september. Ég hvet bara til þess að menn beri ekki í bætifláka fyrir þennan hringlandahátt með því að vísa til þess að hér hafi illa verið staðið að málum í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í eina tíð eða Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eða Samfylkingar og Vinstri grænna. Við reyndum að læra það af efnahagshruninu á Íslandi að það skipti máli að halda aga og reglufestu (Forseti hringir.) í ríkisfjármálum. Það er það sem hér er verið að hverfa frá.