142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Skemmst er frá því að segja að ekki hefur verið fjallað um þetta í allsherjarnefnd. En það eru ákveðnar reglur og lög í gangi um það með hvaða hætti Alþingi getur komið að því að veita ríkisborgararétt. Sá háttur hefur verið hafður á að það er yfirleitt gert í desember og síðan fyrir þinglok að vori.

Það hefur líka verið þannig að við í þinginu höfum verið að fjalla um umsóknir um ríkisborgararétt sem lagðar hafa verið fram og miðað við lögin skal slík umsókn fá umsögn lögreglustjóra á dvalarstað umsækjanda og Útlendingastofnunar. Yfirleitt er miðað við það að þeir sem eru að sækja um séu hér á landi. Svo er ekki í þessu tilfelli. Mér vitanlega hefur umsókn um ríkisborgararétt hér á Íslandi ekki borist frá þessum einstaklingi og því hefur nefndin ekki tekið þetta fyrir og ég hef ekki áform um að gera það nema annað tilefni gefist til.

Hvernig ætti umfjöllun nefndarinnar að fara fram? Við höfum engin gögn, við höfum engar upplýsingar og þar af leiðandi engar forsendur til að meta hvort sá einstaklingur sem hér er spurt um uppfylli þau skilyrði að ástæða sé til þess fyrir okkur að taka það mál til umfjöllunar. Við mundum aldrei, tel ég, hér í þinginu fara að taka ákvarðanir án nokkurra gagna og nokkurra upplýsinga.