142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Undanfarna daga hef ég verið fjarri góðu gamni vegna annarra starfa á vegum þingsins. Á þessum tíma hef ég reynt eftir fremsta megni að fylgjast með framgangi mála hér á hinu háa Alþingi. Þau vinnubrögð sem maður hefur orðið vitni að undanfarna daga hafa komið mér óþægilega á óvart, sérstaklega í ljósi þess að fyrir síðustu kosningar töluðu allir flokkar um að bæta vinnubrögð á þingi og vinna saman, óháð flokkum, til að vinna fyrir fólkið sem kaus okkur til þessara verka.

Við vitum öll að við getum verið ósammála og við erum ósammála um marga hluti, en við getum verið ósammála á málefnalegan hátt. Stjórnarandstaðan sem gagnrýndi fyrrverandi stjórnarandstöðu harkalega fyrir vinnubrögð á síðasta þingi er fallin í sama farið eða jafnvel verra far en var í gangi.

Hv. þingmenn. Er ekki kominn tími til að hætta þessum sandkassaleik og grafa stríðsaxirnar, byrja að vinna saman, óháð flokkum, og vera ósammála á málefnalegan hátt því að þannig vinnum við betur að þeim málum sem við vorum kosin til? (Gripið fram í.) Fólkið úti er orðið langþreytt. Ég segi: Fólkið hér úti sem kaus okkur til þessara verka er orðið langþreytt (BirgJ: Og þar með kjósendur ykkar.) á þessum vinnubrögðum. Sýnum kjósendum okkar virðingu og vinnum á málefnalegan hátt fyrir þá.