142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir brýninguna. Mér þykir leitt að geta ekki alltaf orðið við öllum óskum hv. þingmanns en þannig er þetta bara. Þar sem þingmaðurinn vísar í það að lög og stjórnarskrá skuli höfð í heiðri verðum við auðvitað líka að gera það. Ef við ætlum að fara að taka hér ákvarðanir um að veita tilteknum einstaklingum ríkisfang á Íslandi verðum við að sjálfsögðu að fara eftir þeim lögum og lagabókstaf sem um það gilda. (Gripið fram í.) Það er fjöldi fólks sem óskar eftir því að koma hingað til lands, fjöldi fólks sem hefur lagt fram umsóknir um að verða íslenskir ríkisborgarar, enda er það gott og mikil réttindi í því fólgin. Við þurfum, ef við ætlum að fara að taka einstaka einstaklinga fram fyrir í röðinni, að hafa um það einhverjar upplýsingar og einhver gögn. Þannig er það því miður í þessu máli eins og um alla aðra sem Alþingi hefur til umfjöllunar varðandi ríkisfang.

Þar sem hv. þingmaður var einu sinni í því hlutverki að vera ráðherra yfir þessum málaflokki hefði honum verið í lófa lagið af því tilefni að breyta og leggja fram frumvarp um breytingu á lögum ef hann telur það vera rétt að það eigi að vera hægt að taka slíkar ákvarðanir án þess að hafa nokkrar upplýsingar né heldur umsókn um slíkt.