142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða störf þingsins. Hér hefur komið fram nokkur gagnrýni á þau, eðlilega. Það er áhugavert að heyra í hv. þingmanni sem fylgdist með þessu úr fjarska meðan hún sinnti störfum á vegum þingsins. Ég held að við séum öll sammála um að við vildum hafa annan brag á og vildum gera þetta öðruvísi. Ég held að sjálfsagt sé að ræða það hreinskilnislega.

Mér finnst samt svolítið mikið í lagt þegar hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar koma og gagnrýna vinnubrögðin kringum veiðileyfagjaldið. Af hverju halda menn að við höfum þurft að fara í þessa vinnu út af veiðileyfagjaldinu? Halda menn að það sé einhver ósk eða kostur að fara í hana á sumarþingi? (Gripið fram í: Lækka gjöldin.) Af hverju tala menn með þessum hætti? Þeir vita að þannig var gengið frá þessu að lagalegir og tæknilegir annmarkar gera það að verkum að ekki er hægt að leggja á veiðileyfagjöldin að öllu óbreyttu. (Gripið fram í.) Það er staðreynd málsins og við sitjum hérna og þurfum — (Gripið fram í.) ég heyri að nú er hv. stjórnarandstæðingum órótt, og jafnvel rólegustu stjórnarandstæðingar kalla fram í, vegna þess að þeir vita upp á sig sökina.

Virðulegi forseti. Það er mjög vont að þurfa að vinna þetta á skömmum tíma eins og nú er gert. Það er enginn vafi á því, en það er ekki hægt að kenna nýrri stjórn um það vegna þess að þetta er arfur eldri stjórnar. Ef einhver heldur því fram að hægt sé að leggja fram veiðileyfagjöldin að öllu óbreyttu hvet ég viðkomandi til að kynna sér málið.

Ég hvet viðkomandi aðila, hv. þingmenn, til að kynna sér það sem forsvarsmenn veiðigjaldsnefndar hafa farið yfir á fundi nefndar sem fjallar um þau mál því að við getum verið sammála um ýmislegt, (Forseti hringir.) ósammála um annað en þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir, það var þannig gengið frá þessu af síðustu ríkisstjórn (Forseti hringir.) að ekki varð hjá því komist að fara í málið.