142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Fyrst vegna ummæla hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar er það að segja að hafi Hagstofuna eða veiðigjaldsnefnd skort lagaheimildir til að vinna vinnu sína verður ekki úr því bætt með því að lækka veiðileyfagjaldið um 10 milljarða eins og ríkisstjórnin er að leggja til. Það er hreinn þvættingur. Það þarf að skjóta stoðum undir heimildir Hagstofunnar og veiðileyfagjalda með öðrum leiðum en að lækka gjöldin og álögur á útgerðina. Þetta hljóta menn að skilja ef þeir hugsa.

Að öðru leyti kvaddi ég mér hljóðs í kjölfar ræðu hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur sem kom hingað upp til að gagnrýna störf þingsins, einkum og sér í lagi stjórnarandstöðunnar á þessu sumarþingi. Ég spyr: Hvar hefur þessi hv. þingmaður alið manninn? Hefur hún ekki fylgst með vinnubrögðum og framgangi stjórnarmeirihlutans á þessu þingi, m.a. í umræddu veiðileyfagjaldamáli, m.a. í ljósi þeirra áherslumála sem ríkisstjórnin leggur fram á stuttu sumarþingi, m.a. í ljósi þess frumvarps sem hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir fyrir hönd forsætisráðherra í gærkvöldi um breytingar á þingsköpum Alþingis þar sem lagt er til að samkomudegi þingsins verði breytt án þess að um þær breytingar á þingsköpum sé full samstaða?

Forseti Alþingis, sem ég býð velkominn til starfa á nýjan leik, hefur lýst þeirri skoðun sinni að um umgjörðina um störf þingsins, þar með talið þingsköpin að sjálfsögðu, ætti að verða breið samstaða og að á þeim yrði ekki gerð breyting nema allir væru á einu máli um hana. Og þetta eru vinnubrögð sem stjórnin býður hér upp á og ég held að þingmenn stjórnarflokkanna ættu aðeins að horfa í eigin rann áður en þeir fara að valta yfir stjórnarandstöðuna.