142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins að fá tækifæri til að svara hv. þingmanni sem talaði um hvernig við hegðum okkur í þinginu. Mig langar til að leggja áherslu á að við tölum um, kannski fyrst og fremst minni hluta en ekki endilega alltaf stjórnarandstöðu eins og við höfum bent á, og líka píratar, og einnig að við setjum ekki alla undir sama hatt og nefnum þá flokkana sem við erum að tala um. Ég vil ekki sitja undir því að verið sé að segja í þinginu að til dæmis við í Bjartri framtíð séum með einhverja ómálefnalega umræðu og séum með ókurteisi. Ég sit ekki undir því. Ég hef líka tekið eftir því og langar til að koma því á framfæri að þegar nýir þingmenn tala úr pontu finnst mér ekki við hæfi að verið sé með frammíköll. Það er stressandi að standa hérna og það þarf að venjast því. Sýnum þingmönnum virðingu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þessi frammíköll eru bara til leiðinda.