142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

úthlutunarreglur LÍN og kjör stúdenta.

[11:14]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, Björt Ólafsdóttur, fyrir að vekja máls á þessu. Umræðan er afar þörf vegna þess að hún tengist líka þeirri forgangsröðun sem er í gangi núna og við sjáum á sumarþinginu með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar.

Það hefur verið viðurkennt að í gegnum hrun og erfiðleika eins og við höfum mátt ganga í gegnum skiptir menntun gríðarlega miklu máli, þekking. Þetta er mikilvægasta forsenda farsældar til framtíðar.

Það varð til þess að fyrrverandi ríkisstjórn lagði mjög mikla áherslu á það að verja þennan málaflokk eftir getu þó að það hafi engan veginn tekist að fullu, einfaldlega vegna þess að höggið var svo mikið. Þannig var ráðist í verkefni eins og Nám er vinnandi vegur þar sem allt að þúsund nemendur komust inn í skólana. Kennarar lögðu gríðarlega mikið á sig og skólarnir allir til að reyna að tryggja að fólk ætti möguleika á menntun. Á sama tíma hefur verið mjög ríkur vilji fyrrverandi stjórnvalda, og vonandi verður það áfram hjá núverandi stjórnvöldum, að tryggja aðgang allra að menntun, þ.e. að menn eigi kost á því að fara í nám, og menn eigi líka kost á að koma aftur í nám, byrja í námi að nýju, fara inn í skólana til að sækja sér frekari menntun. Á því þarf samfélagið að halda.

Takmarkanir sem nú er verið að setja fram með tillögum Lánasjóðs íslenskra námsmanna með velvilja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra munu hafa það í för með sér, þrátt fyrir þær mótvægisaðgerðir sem hæstv. ráðherra nefndi, að þrengja mun að þessum kostum, einmitt hjá fólki sem misst hefur af lestinni, m.a. vegna barneigna, hefur valið að stoppa í skólum og fara inn aftur, hefur ekki efni á að missa tekjur, getur ekki stundað fullt nám. Þetta er hópurinn sem mun verða harðast úti í þeim breytingum sem hér eru settar fram.

Ég vara þess vegna mjög við þessu. Það er sorglegt að hlusta á það að verið sé að kenna því um að ástandið sé verra en reiknað hafi verið með. Það er ekkert af upplýsingum sem hafa komið fram sem benda til þess. Við erum bara að sjá nýja forgangsröðun.