142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

úthlutunarreglur LÍN og kjör stúdenta.

[11:19]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Að mínu mati á að auka námskröfur og hafa þær sambærilegar og eru á Norðurlöndum, enda er hér verið að ræða sömu kröfur og voru fram til ársins 2007. Boðaður hefur verið niðurskurður upp á 1,5% og deila má um hvort rétt sé að láta það lenda á námsmönnum með þessum hætti.

Við vitum á hvaða námsmönnum þetta bitnar, en þar ætti undanþága LÍN að hjálpa til. Með leyfi forseta stendur á heimasíðu LÍN:

„Námsmenn geta sótt um aukið svigrúm í námi ef veikindi, barnsburður, örorka eða annað s.s. lesblinda gera það að verkum að þeir geta ekki skilað lágmarksárangri í námi.“

Ég tel að nýjar reglur mundu að öllum líkindum fjölga undanþágum.

Gagnrýni mín liggur helst í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna og hæstv. menntamálaráðherra að hafa ekki samráð við nemendur og námsmannahreyfingarnar fyrir fram. Í þeim hreyfingum er að jafnaði ungt fólk. Í kosningabaráttunni tók ég eftir því að ungt fólk hafði ekki nægilegar skoðanir á málefnunum. En hér er nýtt vandamál, það er ekki nægilega hlustað á unga fólkið. Við erum ekki nógu oft spurð ráða.

Einnig gagnrýni ég þann skamma fyrirvara sem námsmenn fá til að undirbúa sig. Fólk er löngu búið að innrita sig í skólana, borga skólagjöld og setja upp stundaskrá og nú á að breyta námsframvindu með svo stuttum fyrirvara. Námsmenn hefðu kannski valið annað nám eða hagað áfangavali með öðrum hætti ef þetta hefði legið fyrir við innritun.

Að mínu mati eigum við ekki að ná fram niðurskurði hjá lánastofnun námsmanna með því að auka námskröfur, sérstaklega ekki með skömmum fyrirvara.