142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

um fundarstjórn.

[11:36]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér gerðist það undir liðnum um störf þingsins að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir gerði grein fyrir því að stjórnarmeirihlutinn hefur í raun sett stöðu þingloka í uppnám. Um er að ræða stóra efnislega breytingu á frumvarpinu um veiðigjald sem fylgir hér nefndaráliti með breytingartillögu þar sem gert er ráð fyrir að enn sé gefið í, að enn þurfi að gefa útgerðinni meira, að enn þurfi að gefa í í því að bæta stöðu stórútgerðarinnar. Spurt er hvort ekki sé komið nóg.

Ég segi að þinglokin séu í uppnámi. Það þarf að boða þingflokksformenn á fund með hæstv. forseta til að ræða framvindu umræðunnar í dag því að hér er um að ræða efnislega, stóra og veigamikla breytingu sem hlýtur að þurfa umræðu og sem hlýtur að þurfa samráð um við stjórnarandstöðuna.