142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[13:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti sem taldir eru upp í nefndarálitinu. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá fjöldamörgum aðilum sem einnig er getið um í álitinu.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Breytingarnar eru þríþættar. Í fyrsta lagi er lagt til að frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna verði hækkað úr 480 þús. kr. á ári í 1.315.200 kr. á ári. Þannig verður frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna 109.600 kr. á mánuði sem er sambærilegt við frítekjumark örorkulífeyrisþega samkvæmt 14. tölulið ákvæðis til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar.

Í öðru lagi er lagt til að lífeyrissjóðstekjur skerði ekki lengur grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á ýmsum ákvæðum er snúa að starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins þar sem meðal annars er skerpt á eftirlitshlutverki stofnunarinnar og lagðar til sérstakar reglur um leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu stofnunarinnar um söfnun persónuupplýsinga og um viðurlög við brotum á lögunum.

Verði þetta frumvarp samþykkt er snúið til baka skerðingu frá 1. júlí 2009 en þá voru lífeyrissjóðstekjur látnar skerða grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega í fyrsta sinn en fram að þeim tíma höfðu einungis atvinnu- og fjármagnstekjur skert grunnlífeyrinn.

Með hækkun á frítekjumarki atvinnutekna ellilífeyrisþega er stuðlað að aukinni atvinnuþátttöku eldri borgara en mikilvægt er að fólki sé gert kleift að stunda atvinnu á meðan það hefur heilsu til, enda eykur það almennt lífsgæði fólks þó að margt annað komi þar einnig til. Meiri hluti nefndarinnar telur mikilvægt að með frumvarpinu er komið til móts við þann hóp sem hefur þurft að þola mestar skerðingar frá 2009.

Með 2. gr. frumvarpsins er lagt til að nýjum kafla verði bætt við lög um almannatryggingar sem verði V. kafli. Hinn nýi kafli er miklum mun ítarlegri en það ákvæði sem hann leysir af hólmi líkt og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið. Er þó að nokkru leyti verið að lögfesta gildandi framkvæmd, t.d. hvað varðar leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu Tryggingastofnunar enda er stofnunin stjórnvald í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og því gilda ákvæði þeirra laga um ákvarðanir og málsmeðferð stofnunarinnar.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Tryggingastofnunar með bótasvikum frá febrúar 2013 koma fram nokkrar ábendingar um það hvernig bæta megi eftirlit Tryggingastofnunar með bótasvikum. Kemur þar fram að skerpa þurfi á eftirlitshlutverki Tryggingastofnunar og tryggja lögbundnar heimildir hennar.

Það er full eining innan nefndarinnar um að bæta þurfi eftirlitsheimildir og að þetta sé verkefni sem ganga þurfi í af festu og góðri eftirfylgni. Ljóst er af umræðu í nefndinni og þeim umsögnum sem nefndinni bárust að mikilvægt er að auka eftirlitsheimildir stofnunarinnar. Hins vegar telur nefndin mikilvægt að fara betur yfir umsagnir og taka tillit til einstakra athugasemda sem fram hafa komið.

Því leggur meiri hluti nefndarinnar til að 2. gr. frumvarpsins verði felld brott og unnið verði áfram að þessum hluta frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að nýtt frumvarp með auknum eftirlitsheimildum verði lagt fyrir á haustþingi.

Breytingartillögurnar hljóða svona:

Meiri hluti leggur til þrjár breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lagt til að 2. og 3. gr. frumvarpsins falli brott með vísan til þess sem rakið hefur verið hér að framan. Í öðru lagi er lögð til breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins þess efnis að verði frumvarpið að lögum taki þau lög þegar gildi en komi til framkvæmda frá 1. júlí 2013. Í því felst að lífeyrisþegar njóti þeirra réttinda sem frumvarpið mælir fyrir um frá 1. júlí 2013 þó að frumvarpið verði ekki að lögum fyrr en eftir það tímamark. Þá er lagt til ákvæði til bráðabirgða í samræmi við umsögn Tryggingastofnunar um hvernig haga skuli útreikningum greiðslna á árinu.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi breytingu:

„1. 2. og 3. gr. falli brott.

2. 5. gr. orðist svo:

Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda frá 1. júlí 2013.

3. Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Vegna lífeyrissjóðstekna annars vegar og atvinnutekna ellilífeyrisþega hins vegar á árinu 2013 skal Tryggingastofnun ríkisins dreifa tekjunum í samræmi við 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, og 5. mgr. 26. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Þó getur lífeyrisþegi eða heimilismaður óskað eftir því við Tryggingastofnun að tekjum hans verði skipt niður í tímabil fyrir og eftir 1. júlí 2013.“

Undir þetta rita auk þeirrar sem hér stendur Ásmundur Friðriksson, Elín Hirst, Páll Jóhann Pálsson og Unnur Brá Konráðsdóttir.

Að lokum þakka ég nefndinni gott samstarf.