142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[13:07]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir hönd minni hluta velferðarnefndar sem í felast fulltrúar frá Samfylkingu, Bjartri framtíð og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Ég vil byrja mál mitt á því að segja að minni hlutinn mun styðja frumvarpið en gerir jafnframt breytingartillögur á því til að fylgja eftir þeirri forgangsröðun sem höfð hefur verið að leiðarljósi við meðferð almannatrygginga frá hruni.

Það er gott að minnast þess nú þegar við erum í stakk búin til þess að byrja að færa það aftur í fyrra horf sem varð fyrir niðurskurði í kjölfar hrunsins hver myndin var hér við hrun. Árið 2007 settist Samfylkingin í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Jóhanna Sigurðardóttir varð félagsmálaráðherra. Áramótin 2007–2008 voru tryggingamálin færð úr heilbrigðisráðuneyti yfir í félagsmálaráðuneyti sem varð þá félags- og tryggingamálaráðuneyti. Það var vegna áherslu Samfylkingarinnar sem félagshyggjuflokks og jafnaðarmannaflokks á tryggingamálum. Við töldum mikilvægt að þau væru á sama stað og önnur félagsmál og áhugi okkar á því að stórefla þann málaflokk.

Það gekk eftir eins og þegar Jóhanna Sigurðardóttir átti í hlut og barátta hennar fyrir réttlæti og jöfnuði náði fram að ganga með lagasetningum sem þá fóru í hönd. Framlög til almannatrygginga voru stóraukin á árunum 2007–2008 og meira að segja árið 2009 var ýmsum umbótum sem gerðar höfðu verið þyrmt í niðurskurðinum. Markmið okkar í Samfylkingunni og Vinstri grænum var alla tíð að verja þá sem minnst höfðu og stuðla að jöfnuði af því að jöfnuður felur í sér samfélagslega velsæld, félagslega samheldni, betra heilsufar og gefur öllum íbúum landsins tækifæri til að lifa með reisn.

Árið 2007, eftir 12 ára valdasetu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, var það enn svo að tekjur úr almannatryggingum fyrir lífeyrisþega, hvort heldur var elli- eða örorkulífeyrisþega, voru tengdar tekjum maka. Ef maður sem hafði snemma á lífsævinni orðið öryrki var giftur grunnskólakennara skertust bæturnar hans af því að konan hans var með sirka meðaltekjur eða jafnvel þar undir. Þetta var gríðarlegt óréttlæti. Þetta var svo mikið óréttlæti að Hæstiréttur kvað upp úr um að svona mætti ekki meðhöndla fólk. Á góðæristímanum höfðu þessir flokkar þó ekki treyst sér til að leiðrétta það ranglæti sem æðsti dómstóll Íslands hafði kveðið á um að mætti ekki beita fólk með þessum hætti. Jóhanna Sigurðardóttir breytti þessu, auðvitað ekki ein heldur með meiri hluta Alþingis og ég hef ekki tölur um atkvæðagreiðsluna.

Á þeim tíma hafði skömmu áður verið innleitt frítekjumark, 1. janúar 2007 var innleitt frítekjumark fyrir ellilífeyrisþega. Það var hækkað umtalsvert 2008 en síðan lækkað 1. júlí 2009 niður í 40 þús. kr. á mánuði. Það var ekki merki um að við teldum ekki að það ætti að gera ellilífeyrisþegum kleift að afla sér tekna með atvinnu heldur var tjón ríkissjóðs af þeirri stærðargráðu að skera þurfti niður á öllum stöðum og var það mat meiri hlutans þá, þar á meðal Sjálfstæðisflokks, að þetta væri sanngjarnara en ýmsar aðrar aðgerðir.

Á þeim fjórum árum sem við höfum staðið hér í gríðarlegum niðurskurði höfum við aldrei látið það hvarfla að okkur að tengja almannatryggingar einstaklinga aftur við tekjur maka. Það á þó við um fjármagnstekjur rétt eins og það hefur alltaf gert. Það hefði getað verið freistandi því að við hefðum getað náð fram heilmiklum sparnaði, en það var ranglátt og fól í sér ójöfnuð. Þar af leiðandi voru þau skref aldrei stigin og við sem skipuðum meiri hlutann þá verðum alltaf stolt af því að hafa ekki látið það hvarfla að okkur.

Varðandi skerðingarhlutföllin úr 38,5% í 45 er líka gott að muna að þau skerðingarhlutföll höfðu verið lækkuð í tíð Jóhönnu Sigurðardóttur sem félags- og tryggingamálaráðherra úr 45, eins og þau höfðu alltaf verið, niður í 38,5. Það var því hennar verk sem hafði náð að gera þessar gríðarlegu umbætur á kerfinu, umbætur sem voru þannig að sannarlega var hægt að tala um byltingu á því sviði, þó að allir séu sammála um enginn lifi kóngalífi á almannatryggingum og ég ætla síst að reyna að halda því fram. Umbæturnar voru samt sem áður gríðarlegar.

Það kom í hlut Jóhönnu Sigurðardóttur að leiða þá ríkisstjórn sem þurfti að fara í niðurskurð á þessu kerfi. Hún var vakin og sofin yfir því með okkur stjórnarliðum, hélt okkur við efnið og alltaf var verið að leita leiða sem mundu valda sem minnstum skaða og sem mundu hlífa þeim sem best sem minnst hafa. Það var leiðarljósið í þeirri vinnu sem var fyrir okkur öll mjög sársaukafull. Það var einfaldlega ekkert val á þeim tíma enda má segja að um sjöunda hver króna ríkisins fari í að greiða almannatryggingar og það þurfti að ná niður halla á ríkissjóði sem var búið að eyðileggja, í tíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafði tekjuöflunarkerfi ríkisins verið eyðilagt. Það var búið að rýra þannig skattstofnana að þeir gáfu ekki þær tekjur sem þurfti nema hér væri blússandi góðæri. Ef hér hefði ekki orðið hrun heldur verið eðlilegt tíðarfar hefði skattheimtan ekki dugað fyrir útgjöldunum og annaðhvort hefði þurft að hækka skatta eða lækka útgjöld.

Hrunið olli því að hækka þurfti skatta og lækka útgjöld til þess að ná niður hallanum á ríkissjóði, til þess að byrja að borga niður skuldir því að skuldirnar valda því að við greiðum á 9. tug milljarða á ári í vaxtagreiðslur. Baráttan fyrir hallalausum fjárlögum og skuldaniðurgreiðslu snýst um að draga úr vaxtabyrði ríkissjóðs, hætta að nota fjármuni skattgreiðenda í að greiða vexti og nota þá til að tryggja velferð, til að efla menntakerfið, löggæslu og alla þá þætti sem nauðsynlegir eru til þess að halda uppi góðum og siðmenntuðum samfélögum.

Niðurskurðurinn á árunum 2009–2013 snerist um vörnina um Ísland sem gott og siðmenntað samfélag. Það þýddi að á sumum stöðum var ekkert sérstaklega flókið að skera niður, það voru miklir fjármunir á einhverjum stöðum en mjög víða var verið að skera niður kerfi sem höfðu búið við langvarandi niðurskurð í aðdraganda hrunsins, eins og í heilbrigðiskerfinu sem var þegar fyrir hrun með úr sér gengin tæki sem enginn úr Framsóknarflokki eða Sjálfstæðisflokki hafði forgangsraðað fjármunum til að endurnýja. Mun rausnarlegri fjárveitingar hafa verið til tækjakaupa upp á það allra síðasta en nokkurt ár á 21. öldinni.

Almannatryggingarnar höfðu nýlega, eins og ég kom inn á, fengið umtalsverða viðbót og þar þurfti að skera. Við afnámum ekki nýinnfært frítekjumark á atvinnutekjur aldraðra en við lækkuðum það. Við héldum því í rúmum 100 þús. kr. á örorkulífeyrisþega því að við töldum mikilvægt að öryrkjar á besta aldri hefðu tækifæri til að afla sér tekna með atvinnu. Ef þeir hefðu aðstæður til þess væri það gríðarlega mikilvægt til þess að þeir gætu aukið tekjur sínar en ekki síður verið virkir þátttakendur í samfélaginu.

Það má til sanns vegar færa að það sama eigi við um ellilífeyrisþega en við forgangsröðuðum þarna fyrir öryrkjana, enda fólk á besta aldri, oft með börn á framfæri og stefna stjórnvalda hefur lengi verið að gefa öllum þátttöku til virkni sé möguleiki þar á. Við hækkuðum nýlækkað frítekjumark á tekjur vegna útreikninga á tekjutryggingu og fleiri bótaflokkum. Við færðum til baka umbætur sem voru tveggja ára gamlar. Sú skerðing rennur út um áramót af því að meiri hluti Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gerði það ákvæði að bráðabirgðaákvæði þannig að frá og með árinu 2014 munu þær skerðingar sjálfkrafa, vegna Samfylkingar og VG, falla úr gildi og skerðingarnar fara aftur niður í 38,5%.

Út af þessu komum við þannig til móts við lífeyrisþega, til þess að fólk missti ekki trúna á það að greiða í lífeyrissjóð, að við innfærðum frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur vegna tekjutryggingar í áföngum. Fyrir mörg okkar var skerðingin á grunnlífeyrinum erfið. Þarna var brotið ákveðið prinsipp um að allir ættu að hafa rétt úr almannatryggingum. Það fóru fram miklar umræður um þetta og mörg okkar þurftu að bíta í það súra epli að fara í þá skerðingu gegn því að geta hækkað sérstöku framfærsluuppbótina fyrir þá sem minnst höfðu meira en aðra bótaflokka. Við þurftum að velja, við þurftum að vega og meta kosti. Þó að niðurstaðan væri sú sem við töldum skásta hefðum við að sjálfsögðu viljað sleppa því að skerða grunnlífeyrinn.

Nú kem ég kannski beinna inn á minnihlutaálitið af því að ef til vill eru rökin fyrir því að það varð ofan á að skerða lífeyrinn vegna lífeyrissjóðstekna í stað þess að hækka ekki jafnmikið framfærsluuppbótina þau að það eru einmitt þeir sem hafa yfir 400 þús. kr. á mánuði í heildartekjur, eins og kemur fram í áliti meiri hlutans, sem urðu þá fyrir mestu skerðingunni.

Nú er verið að færa það til baka, það er verið að svíkja loforð sem voru gefin hér rétt eftir kosningar, það átti að færa allar skerðingar til baka strax. Það er nú svikið en farið í grunnlífeyrinn fyrir þá sem mest hafa.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir gekk jafnvel svo langt að segja að leiðrétta ætti þessar skerðingar aftur í tímann. Í okkar hópi höfum við ekki alveg skilið hvort hún var að meina þetta nákvæmlega, en það er mikilvægt, af því að margir hafa velt því fyrir sér, að hv. formaður fjárlaganefndar komi inn í þessa umræðu og lýsi sýn sinni á það hvernig á að efna þau loforð sem voru gefin í aðdraganda kosninga og eftir kosningar og hvað hún meinti, enda tugir þúsunda sem hafa framfærslu af þessu kerfi og þá munar um hverja krónu.

Við í minni hlutanum leggjum til tvær breytingartillögur. Við börðumst fyrir því að innleitt yrði nýtt frumvarp sem velferðarráðherra lagði fram á síðasta þingi, frumvarp sem hefur verið í vinnu, þverpólitískri vinnu með hagsmunaaðilum svo árum skiptir og meðal annars Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn studdu, frumvarp sem var réttlátara að því leyti að það einfaldaði kerfið með sameiningu bótaflokka, samræmdi skerðingarmörk vegna tekna og dró úr fátæktargildrum í kerfinu. Þetta var það frumvarp sem við lögðum áherslu á í kosningabaráttunni að yrði lögleitt og innleitt í takti við það sem afkoma ríkissjóðs leyfði.

Við vorum þó skýr í því að við mundum forgangsraða því fremst, þarna yrðu áherslur okkar. Þar af kemur, og allir flokkarnir í minni hluta eru sammála um það, að með þessari breytingartillögu byrjum við innleiðingu á þessu nýja kerfi sem þýðir að hin illræmda króna á móti krónu skerðing á framfærsluuppbótinni — sem þýðir að þú mátt engra tekna afla utan almannatrygginga, þá byrja þær að skerðast — verði lækkuð úr 100% í 80% frá og með 1. júlí og að skerðingin verði síðan lækkuð í 70% frá og með 1. janúar 2014. Þetta er gríðarlegt réttlætismál því að það varðar þann hóp sem er með lægstu tekjurnar í þessu landi. Við heitum á meiri hlutann að sýna að þeirra forgangsröðun sé ekki sú að skilja eftir þá sem minnst hafa.

Þá erum við með aðra breytingartillögu sem varðar frítekjumark örorkulífeyrisþega. Það hefur verið í bráðabirgðaákvæði í mörg ár enda var það í raun haft þar vegna uppbyggingar á hinu nýja kerfi og það kæmi þar sem átti að hætta með sérstök frítekjumörk fyrir mismunandi tekjuflokka. En við teljum að úr því að inn í lagatextann er komið frítekjumark upp á rúma 1,3 milljónir á atvinnutekjur ellilífeyrisþega sé fráleitt að örorkulífeyrisþegar sitji ekki við sama borð, að minnsta kosti. Að öðrum kosti er þetta bráðabirgðaákvæði sem kynni að falla úr gildi um næstu áramót ef það er ekki pólitískur meirihlutavilji fyrir því að örorkulífeyrisþegar séu hvattir til atvinnu ekki síður en ellilífeyrisþegar.

Breytingin niður í 80% skerðingu kostar innan við milljarð. Milljarður er gríðarlega miklir fjármunir, við vitum það sem höfum skorið niður tugi og hundruð milljarða, við vitum að hver einasti milljarður er vandamál. Það er erfitt, milljarð fyrir milljarð, að finna niðurskurð. Trúið mér, við í minni hlutanum vitum allt um það. En nú sjáum við hvernig milljarðar eru meðhöndlaðir af nýrri ríkisstjórn. Fyrir nýja ríkisstjórn er ekkert vandamál að afsala sér tekjum, en þegar á að standa við loforðin um aukin framlög til almannatrygginga er 1,5 milljarðar eða 1,8 það sem ríkisstjórnin er tilbúin til þess að láta af hendi rakna. Okkur finnst það vægast sagt hófsöm tillaga að bæta við það milljarði, milljarði sem rennur til þeirra heimila sem minnst bera úr býtum í þessu samfélagi.

Varðandi breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra er komið inn á það í greinargerð með frumvarpinu, umsögnum frá Jafnréttisstofu og frá Femínistafélaginu að það gæti ekki að jafnrétti kynjanna, ekki að því leyti að almannatryggingakerfið mismuni fólki eftir kynjum, þar stöndum við öll jafnt, en það endurspeglar þá tekjumisskiptingu sem er á milli kynjanna í samfélaginu. Það endurspeglar að enn eru margar konur að fá ellilífeyri sem áttu tiltölulega stutta viðveru á vinnumarkaði og eru þar af leiðandi með lágan lífeyrissjóð, en afkoma kvenna í þessu kerfi endurspeglar kynbundinn launamun. Það er mjög alvarlegt ef löggjafinn reynir ekki að vinna gegn þessu misrétti í lagasetningu sinni. Það að auka framlög til þeirra sem minnst hafa þýðir að við erum að hækka lífeyri til kvenna í hlutfallslega meira mæli.

Sú breyting sem við leggjum til mun strax hafa áhrif á 17 þúsund elli- og örorkulífeyrisþega og hátt í 70% þeirra eru konur, konurnar sem hafa lægstar tekjur á Íslandi. Með innleiðingu í 70% skerðingu á framfærsluuppbót mun lífeyrir þeirra 23 þúsund lífeyrisþega sem minnst hafa hækka og þá erum við komin niður í að konur séu um 67–68% af þeim hópi.

Það er gott að muna að í frumvarpi ráðherra gagnast breytingarnar sem þar eru boðaðar körlum í miklum meiri hluta, sérstaklega körlum sem eru með yfir 400 þús. kr. á mánuði. Nú eru 400 þús. kr. á mánuði ekkert þannig tekjur að ástæða sé til að telja þær háar, en þær eru háar miðað við þá sem hafa framfærslu sína af almannatryggingakerfinu. Mér finnst skrýtið að flokkur sem kennir sig við samvinnu og jafnvel félagshyggju á góðum dögum skuli leggja fram frumvarp þar sem forgangsröðunin er ekki á fátæka örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega heldur þá sem hafa hæstar tekjur í almannatryggingakerfinu. Þetta er ekki bara á þá sem hafa hæstu tekjurnar í kerfinu, þetta er líka á þá sem eru dottnir út úr kerfinu því að tekjurnar eru of háar.

Þetta frumvarp kom mjög seint inn á sumarþing. Það harma ég því að Samfylkingin var búin að leggja fram frumvarp um allsherjarbreytingu á almannatryggingakerfinu í anda vinnuhópa sem allir flokkar stóðu að og velferðarráðherra lagði fram á síðasta kjörtímabili. Hefði þetta frumvarp verið lagt fram fyrr hefðum við getað leitað leiða til þess að samþætta þetta og stuðla að því að kerfisbreytingin, sem er réttlátari og betri, næði fyrr fram að ganga.

Ef það væri svo að þessi breyting væri bráðsnjöll af því að hún væri mikilvæg þar sem hún gagnaðist þeim sem minnst hefðu og væri að vinna í þágu nýs kerfis sem allir vilja innleiða, þá hefði ég getað skilið þetta og líka þá hugsun að þeir sem hafa meðaltekjur eigi líka rétt á uppbótum fyrir þá skerðingu sem þeir hafa orðið fyrir. En breytingin vinnur í raun, eins og umsagnaraðilar benda á, ekki síst ASÍ og Samtök atvinnulífsins, gegn nýju kerfisbreytingunni af því að það verður dýrara að innleiða hana þegar þar að kemur. Með nýja kerfinu munu lífeyrisþegar í sambúð detta út úr kerfinu við um 406 þús. kr. í mánaðartekjur og þeir sem eru einhleypir við um 460 þús. kr. í mánaðartekjur.

Þetta eru mjög vel unnar tillögur, mjög úthugsaðar og þær koma til móts við þá sem minnst hafa en reyna samt líka að tryggja almenningseignarhald á almannatryggingakerfinu. Ég legg ríka áherslu á það fyrir hönd minni hlutans að breytingartillögur okkar, hófsamar sem þær eru, verði samþykktar hér. Við munum styðja tillögur meiri hlutans þó að við hefðum viljað sjá aðra forgangsröðun, en við munum ekki leggjast gegn því að einhver hópur fái aukin framlög úr almannatryggingakerfinu. Það hlýtur að teljast jákvætt þótt forgangsröðunin sé fráleit.

Við leggjum líka áherslu á að flokkar standi við orð sín á milli kosninga og hlaupi ekki frá samkomulagi um kerfi sem hefur verið unnið að mótun á árum saman með aðkomu allra flokka og allra hagsmunaaðila. Þar þarf sérstaklega að líta til þess að fá Öryrkjabandalagið að borðinu aftur.