142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[13:37]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð bara að viðurkenna að ég var algjörlega steinhissa þegar ég heyrði ræðu hv. þingmanns. Við erum að efna kosningaloforð um að setja það í forgang að koma til móts við aldraða og öryrkja. (ÖS: Það er gott.) Við erum að gera það núna hvað aldraða snertir eins og efni gera ráð fyrir. Við erum að gera það sem ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna heyktist á í fjögur ár. Við erum að reyna að bæta úr þeim skerðingum sem urðu hér 1. júlí 2009.

Að hlusta á formann velferðarnefndar gagnrýna málsmeðferðina er algjörlega fáheyrt, virðulegi forseti. Það var ekki eitt jákvætt orð í ræðu hv. þingmanns, ekki eitt einasta jákvætt orð um að nú væri ríkisstjórnin að stíga skref í átt til þess sem hún lofaði allt síðasta kjörtímabil og kenndi sig meira að segja við.

Eigum við að rifja upp niðurskurðinn í heilbrigðismálum? Eigum við að rifja upp alla þá borgarafundi sem voru haldnir víðs vegar um land? Eigum við að rifja upp hversu margir yfirgáfu ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna út af brostnum loforðum hvað snertir velferðarmál? Eigum við að endurflytja ræður hv. fyrrverandi þingmanns Atla Gíslasonar þegar hann nefndi það að niðurskurðurinn bitnaði hvað mest á konum og sagði að hann gæti ekki stutt ríkisstjórn sem hagaði málum sínum þannig?

Við leggjum okkur hér fram um að sýna samstöðu og þess vegna (Forseti hringir.) treystum við hv. þingmanni til þess að leiða velferðarnefnd. En við gerum líka kröfu til þess að hún sé jákvæð (Forseti hringir.) um þau skref sem þó eru stigin þó að þau séu kannski minni en hv. þingmaður (Forseti hringir.) vænti.