142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[13:42]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Áður en þessi ríkisstjórn var mynduð, áður en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur voru búnir að mynda ríkisstjórn, fóru að heyrast raddir úr stjórnarandstöðunni um að ríkisstjórnarflokkarnir væru að svíkja kosningaloforð sín.

Við sögðum í kosningabaráttunni að við ætluðum að gera betur en ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Það erum við að gera. Við erum að bæta stöðu þeirra sem hvað verst hafa það í samfélaginu. Þetta er bara fyrsta skrefið og ég spyr: Verður þetta svona allt kjörtímabilið, þegar við reynum að bæta hlut þeirra sem hvað verst hafa það í þjóðfélaginu, þó að það gerist ekki allt á einum degi, mun þá stjórnarandstaðan heimta meira um leið og hún segir að það þurfi að huga að rekstri ríkissjóðs?

Ég spyr mig hvernig standi á því að formaður velferðarnefndar — við ákváðum að veita stjórnarandstöðunni formennsku í velferðarnefnd þannig að við gætum — (ÁÞS: … samkvæmt þingsköpum.) þannig að við færum í þessi mál með samvinnu að leiðarljósi. Það stendur ekki í þingsköpum að þessi tiltekna nefnd skuli fara til stjórnarandstöðu. Það er reyndar ekki rétt sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson segir, að það standi í þingsköpunum. Ég þarf að leiðrétta það sem birtist í grein hans í Fréttablaðinu fyrir nokkrum vikum. Það er rangtúlkun á þingsköpum en það er annað mál. (ÁÞS: Það er rangt.)

Ég spyr: Ætlar stjórnarandstaðan að láta svona allt þetta kjörtímabil þegar við reynum að vinda ofan því sem henni tókst ekki? (Gripið fram í.) Skerðingarnar 1. júlí 2009 áttu að vera tímabundnar. Er það ekki rétt? (Forseti hringir.) Jú. Var það ekki svikið ítrekað? Við erum að reyna að stíga skref (Forseti hringir.) til að bæta úr því sem stjórnarandstaðan gat ekki gert á síðasta kjörtímabili.