142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[13:44]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er vægast sagt vandræðalegt. Hv. þingmaður, sem sat í fjárlaganefnd allt síðasta kjörtímabil, virðist í fyrsta lagi ekki skilja af hverju niðurskurður fór fram og í öðru lagi ekki skilja kosningaloforð eigin flokks.

Sá hluti af skerðingunum frá 1. júlí sem átti að ganga til baka mun ganga til baka um næstu áramót, ekki út af núverandi ríkisstjórn heldur út af lagasetningu fyrri ríkisstjórnar. Og af hverju er nú hægt að fara að bæta aftur í almannatryggingakerfið? Eigum við að rifja upp af hverju það er hægt, frú forseti? Það er hægt af því að hér náðist undraverður árangur í ríkisfjármálum. (HöskÞ: Ekki fannst kjósendum það.)

Frumvarpið sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra leggur fram er ágætt svo langt sem það nær, en það er samt sem áður ekki verið að uppfylla kosningaloforðin (Gripið fram í.) og það er bara verið að uppfylla kosningaloforðin gagnvart þeim sem hafa allra hæstu tekjurnar.