142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[13:45]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að þessi ræða, sem var full vandlætingar og neikvæðni, kom mér mjög á óvart. Það kom mér á óvart að formaður nefndarinnar skyldi tala með þessum hætti. En gott og vel, þá er það greinilega stefnan sem minni hlutinn ætlar að taka þrátt fyrir að vera með formennsku í velferðarnefnd. Ég hefði ætlað að menn ætluðu þar á þessu kjörtímabili, eins og á því síðasta, að reyna að vinna saman og tala málefnalega.

Er það þá svo að það stóð ekki til af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar að leiðrétta þessar skerðingar sem komu til í júlí 2009? Er það svo? Það er gott að fá skýrt svar við því.

Er það svo að það sé afstaða Samfylkingarinnar hér á þingi að þeir sem hafa greitt í lífeyrissjóð eigi ekki að njóta þess, að það sé eðlilegt að í stað þess að menn fái greitt úr lífeyrissjóði, sem hefur verið nánast samkomulag um í samfélagi okkar, að það sé einhver tilgangur með því — er það afstaða Samfylkingarinnar að það skuli allt skerðast og það sé enginn tilgangur með því að greiða í lífeyrissjóð?