142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[13:47]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Að draga til baka skerðingar frá 1. júlí, það mun gerast. Ég segi það enn eina ferðina hér, það mun gerast að hluta til um næstu áramót. En það sem við skulum líka muna er að lögð hefur verið til þverpólitísk tillaga um kerfisbreytingu. Það þýðir að núverandi kerfi yrði lagt niður og verið er að tala um skerðingar í núverandi kerfi. Við höfum talað fyrir innleiðingu nýs kerfis sem er réttlátara, einfaldara, dregur úr misræmi í skerðingum og kemur í veg fyrir fátæktargildrur. Hv. þm. Pétur Blöndal þekkir mætavel uppbyggingu þessa kerfis.

Varðandi lífeyrissjóðina skiptir mjög miklu máli að tryggja að fólk vilji áfram greiða í lífeyrissjóði því að lífeyrissjóðakerfið er gríðarlegur styrkur fyrir okkar samfélag. Það voru umbætur í kerfinu á ýmsum sviðum þrátt fyrir niðurskurðinn og þar innleiddum við í skrefum frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur vegna tekjutryggingar. Því er alls ekki hægt að segja að við höfum markvisst unnið gegn vilja fólks til að greiða í lífeyrissjóðina heldur þvert á móti.