142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[13:51]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég tel að það hefði verið algjörlega óraunhæft að ætla sér á nokkrum vikum að innleiða nýtt almannatryggingakerfi. Enda lagði ég áherslu á það sem formaður velferðarnefndar fyrir kosningar, þegar málið kom mjög seint inn i þingið, að senda yrði það út með löngum umsagnarfresti því að þetta væri mikilvægt kerfi sem varðaði gríðarlega hagsmuni fólks. En hefðum við fengið þetta frumvarp fyrr inn í þingið hefðum við getað unnið að breytingum sem vinna með nýju kerfi en torvelda ekki innleiðingu þess.

Að lokum, frú forseti: Það er merkilegt að bæði fulltrúum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks virðist þykja óeðlilegt að kjörinn fulltrúi tali fyrir stefnu síns flokks úr ræðupúlti Alþingis. Mér finnst það óhugnanlegt, þetta viðhorf, og ég kýs að trúa því að þau hafi misst þetta út úr sér í einhverju svona smárugli, því að þetta er þeim til vansa, (Gripið fram í.) og ákaflega óskemmtilegt.