142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[13:54]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil biðja hv. þingmann afsökunar og tek undir það að þetta var óheppilegt orðalag. En þá vil ég, frú forseti, ítreka það að forseti verji það að ekki sé vegið að málfrelsi þingmanna með því að ætla þeim að tala með ákveðnum hætti og fyrir ákveðinni stefnu af því að þeir hafi verið valdir til trúnaðarstarfa.

Að sjálfsögðu erum við öll valin til trúnaðarstarfa fyrir hönd kjósenda okkar og innan hópsins skipum við okkur síðan í mismunandi hlutverk. Það að taka að sér ákveðið hlutverk tekur ekki frá manni pólitískar hugsjónir eða stefnu þess flokks sem maður starfar fyrir í umboði kjósenda.